Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ríkisstjórnin setti stóru málin útaf borðinu sjálf“

11.06.2021 - 22:25
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Meðal þeirra mála sem ekki verða afgreidd á þessu kjörtímabili er frumvarp heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta, frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð og frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á áfengislöggjöfinni. Jafnframt verður frumvarp Katrínar Jakobsdóttur um stjórnarskrárbreytingar ekki afgreitt fyrir þinglok, samkvæmt því samkomulagi sem náðist um þinglok á Alþingi í kvöld.

Bjarkey Olsen þingflokksformaður Vinstri grænna segist ekki telja að samkomulagið sé vonbrigði, þrátt fyrir að stór mál flokksins verði ekki afgreidd.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Í sjálfu sér ekki vegna þess að það er mikið talað um að hálendisþjóðgarðurinn hafi verið okkar stærsta mál en hann var auðvitað bara partur af mjög mörgum málum. Við höfum náð mjög mörgu fram en það er alltaf leiðinlegt þegar maður nær ekki öllu sínu fram, það eru alltaf vonbrigði. En veruleikinn er þannig, ekki bara hér innan Alþingishússins heldur líka utan þess, og umsagnir við bæði þessi mál, afglæpavæðinguna og hálendisþjóðgarðinn voru mjög margar og viðamiklar og það voru mjög skiptar skoðanir. Sum mál þurfa bara lengri tíma til  að þroskast og ég held að þessu sé bara þannig farið núna,“ segir hún. 

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að hún hefði gjarnan viljað að stærstu mál stjórnarflokkanna hefðu verið tekin til frekari umræðu í þinginu. Hún fagnar því að hver þingflokkur hafi fengið í gegn tvö þingmannamál sem verða afgreidd á morgun.

„Mér finnst þetta samkomulag í raun ágætt en það hefur tekið langan tíma og ríkisstjórnarflokkarnir hafa sjálfir sett útaf borðinu mjög stór deilumál því þeir hafa ekki komið sér saman um hvernig ætti að leysa þau. Svo að stóru málin sem þau hafa ekki getað komið sér saman um, ríkisstjórnin setti þau útaf borðinu sjálf,“ segir hún. Hún hefði sérstaklega viljað ræða rammaáætlun og stjórnarskrármál forsætisráðherra og eins mál sjávarútvegsráðherra: „Eins og um eftirlit með fiskveiðiauðlind og hvernig við lítum eftir tengslum aðila sem eiga útgerðarfyrirtæki og hvernig við vinnum gegn samþjöppun í greinunni,“ segir hún.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV