LSH óskaði ekki eftir að taka að sér greiningu sýna

11.06.2021 - 15:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Landspítalinn óskaði í upphafi ekki eftir því að taka að sér frumurannsóknir frá leghálssýnum í tengslum við krabbameinsskimanir og taldi yfirlæknir á meinafræðideild spítalans að slík starfsemi væri nokkuð frábrugðin starfi deildarinnar, krefðist sérhæfðs starfsfólks og mjög sérhæfðs tækjabúnaðar.

Vegna þessa fyrirvara ákvað Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins að semja við erlenda rannsóknarstofu um rannsóknir á leghálssýnum.

Þetta segir í nýrri skýrslu sem Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir, vann fyrir heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi leghálsskimana en skýrslan er unnin að beiðni þingmanna stjórnarandstöðunnar.

Leghálsskimanir færðust frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um síðustu áramót. Ákveðið var að senda sýnin til Danmerkur til veiru- og frumugreiningar og hefur það hlotið harða gagnrýni frá konum, kven- og krabbameinslæknum.

Samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er biðtími eftir niðurstöðum rannsókna um tveir til þrír mánuðir um þessar mundir, en heilsugæslan stefnir að biðtíminn verði ekki lengri en sex vikur og að meðaltali um fjórar vikur.

Hverfandi áhrif á starfstækifæri

Í skýrslunni kemur einnig fram að vegna flutnings á leghálssýnum til rannsókna erlendis tapist tvö störf lífeindafræðinga sem starfa við frumugreiningu, sem og hlutastarf meinafræðings.

Í skýrslunni kemur fram að 131 lífeindafræðingur hafi gilt starfsleyfi á Íslandi, en þar af séu 37% á sjötugsaldri. Þá eru sextán starfandi meinafræðingar á Íslandi, en fimm þeirra á þrítugsaldri.

Segir í skýrslunni að fremur sé ástæða til að hafa áhyggjur af nýliðun í  greininni. „Ætla má að umtalsvert álag sé á þessum starfsstéttm og róðurinn muni herðast,“ segir þar. Því þurfi ekki að hafa áhyggjur af því þótt þessi störf flytjist úr landi.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson