Haukar komnir í úrslitin þrátt fyrir tap

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Haukar komnir í úrslitin þrátt fyrir tap

11.06.2021 - 19:54
Deildarmeistarar Hauka eru komnir í úrslitaeinvígið í handbolta eftir þriggja marka tap gegn Stjörnunni í kvöld. Haukar fara áfram eftir að hafa unnið fyrri leik liðanna með fimm mörkum.

Haukar voru í draumastöðu fyrir leik kvöldsins eftir að hafa unnið fyrri viðureign liðanna 23-28 í Garðabænum. En Haukar hafa verið allt að því óstöðvandi í vetur. Leikmenn Stjörnumenn voru þó ekki tilbúnir að játa sig sigraða eftir aðeins einn leik. Liðin buðu því upp á afar jafnan og spennandi leik en í stöðunni 10-10 kom frábær kafli hjá Stjörnunni þar sem þeir skoruðu fimm mörk í röð og breyttu stöðunni í 10-15. Haukar skoruðu svo síðasta mark hálfleiksins og staðan því 11-15 í hálfleik. 

Spennan var ekki minni í upphafi síðari hálfleiks og Stjarnan var lengst af með fimm marka forystu. Í stöðunni 17-22 kom loks góður kafli hjá heimamönnum þar sem þeir skoruðu tvö mörk í röð áður en Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, tók leikhlé. Þarna voru Haukar hins vegar komnir í gang og röðuðu inn mörkunum og náðu að jafna í stöðunni 24-24. Í kjölfarið náði Stjarnan öðrum góðum kafla og náði fjögurra marka forystu í stöðunni 25-29, eitt mark í viðbót frá Stjörnunni og þeir væru þá á leið í úrslitaeinvígið. Haukar gáfust ekki upp og skoruðu næstu tvö mörk og í kjölfarið skiptust liðin á að skora. Að lokum vann Stjarnan leikinn með þriggja marka mun, 29-32 en það dugði ekki til og Haukar eru því komnir í úrslitaeinvígið.

Brynjólfur Snær Brynjólfsson var markahæstur hjá heimamönnum með sex mörk og Björgvin Páll Gústavsson varði 16 skot. Hjá Stjörnunni var Tandri Már Konráðsson markahæstur með tíu mörk og markverðirnir vörðu samtals 18 skot. Brynjar Darri varði 13 og Sigurður Dan varði fimm skot.