Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Er virkni bóluefna góður mælikvarði?

11.06.2021 - 14:55
Mynd: EPA / EPA
Aðeins um helmingur þeirra sem fékk boð í bólusetningu með bóluefni Janssen í Laugardalshöll á fimmtudag mætti á svæðið.

Í frétt RÚV um málið sagðist Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, ekki geta útskýrt af hverju mætingin var svona dræm en ein af ástæðunum gæti verið sú að bóluefni Janssen kemur ekkert sérstaklega vel út í samanburði við önnur bóluefni eins og Pfizer og Moderna í fréttum um virkni.

Bólusetningar voru örskýrðar aftur í Hádeginu á Rás 1. Hlustaðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan.

En er umrædd virkni góður mælikvarði og ef ekki, hvaða mælikvarði er betri? Af hverju vill sumt fólk alls ekki láta bólusetja sig og er þetta allt saman hluti af ráðabruggi Bill Gates um að taka yfir heiminn? Við skulum velta fyrir okkur bólusetningum í örskýringu vikunnar og það skal tekið fram að sá sem þetta les er með stútfullan handlegg af bóluefni Janssen.

Í fréttaskýringu vefmiðilsins Vox kemur fram að þrátt fyrir að virkni bóluefna sé mikilvægur mælikvarði, sé samanburður á virkninni ekkert sérstaklega gagnlegur. 

Við höfum öll séð fréttir um að virkni bóluefna Pfizer og Moderna sé 95 og 94 prósent á meðan virkni Janssen sé aðeins 66 prósent. Ég ætla ekki að fullyrða að þetta hafi áhrif á mætingu fólks í bólusetningu í Laugardalshöll en það er að minnsta kosti gott fyrir okkur að vita að prófanir á bóluefnunum fóru fram þegar faraldurinn var í mismiklum vexti. 

Pfizer og Moderna voru prófuð í Bandaríkjunum þegar faraldurinn var ekki í miklum vexti en bóluefni Janssen var prófað þegar faraldurinn var í miklum vexti. Þá var Janssen prófað í löndum þar sem stökkbreytt afbrigði veirunnar höfðu náð fótfestu. Það er því kannski ekkert skrýtið að munur sé á virkninni; fyrrnefndu bóluefnin tvö voru prófuð á svæðum þar sem líkurnar á smiti voru miklu minni.

Og hver er þá besta ástæðan fyrir því að þiggja bóluefni?

Amesh Adalja, smitsjúkdómalæknir og aðjúnkt við Johns Hopkins háskólann í Baltimore, segir í fréttaskýringu Vox að með hverri sprautu sem fólk þiggur færumst við nær því að binda enda á faraldurinn.

Annar gagnlegur punktur í skýringuni er að eitt af markmiðunum með bólusetningu sé að lágmarka áhættuna á að veikjast illa eða deyja ef maður er svo óheppinn að smitast af kórónuveirunni. Öll bóluefnin sem eru í boði gera það mjög vel.

Af hverju þiggur sumt fólk ekki bólusetningu?

Samkvæmt vefnum Bóluefni.is eru öll bóluefnin sem notuð eru hér á landi við COVID-19 örugg og veita bestu mögulegu vernd gegn sjúkdómnum. Það er þó einnig tekið fram að allar bólusetningar geti valdið aukaverkunum og fólk hræðist þær eðlilega. 

Falskar upplýsingar um bóluefni við COVID-19 hafa einnig náð mikilli útbreiðslu en bólusetningar hafa í gegnum tíðina verið skotspónn fólks sem trúir gölnum samsæriskenningum. Á meðal falskra upplýsinga sem dreifast í krafti samfélagsmiðla er að bóluefnin við COVID-19 breyti erfðaefni í fólki, sem er rangt; að örflögu sem gerir Bill Gates kleift að fylgjast með fólki sé komið fyrir með sprautunni, sem er einnig rangt; og að Gates hafi fullyrt að 700 þúsund manns muni láta lífið af völdum bólusetninga, sem hann hefur ekki sagt.

En nú lesum við reglulega fréttir um örtröð í Laugardalshöll. Það er því eðlilegt að velta fyrir sér hvað gerist næst?

Í dag ræðir ríkisstjórnin á fundi sínum tvö minnisblöð frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni. Annað snýr að aðgerðum á landamærunum en hitt að samkomutakmörkunum innanlands.

Samkvæmt nýjustu tölum á vefnum Bóluefni.is eru rúmlega 75 prósent Íslendinga fullbólusettir, hálfbólusettir eða með mótefni. Samkvæmt áætlun stjórnvalda, sem kynnt var í lok í apríl, stóð til að öllum takmörkunum yrði aflétt í síðari hluta júní þegar 75 prósenta múrinn yrði rofinn.

Þetta virðist sem sagt allt ganga samkvæmt áætlun.