Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Boltinn fær að rúlla í Brasilíu

epa09260372 Exterior view of the Mane Garrincha stadium, one of the four venues for the Copa America 2021, in Brasilia, Brazil, 10 June 2021. The plenary session of the Supreme Court of Brazil began on 10 June the hearings of several appeals that ask for the suspension of the Copa America due to the coronavirus pandemic, with the vote of three magistrates in favor of holding the tournament in the country.  EPA-EFE/Joedson Alves
Mane Garrincha-leikvangurinn í Brasilíuborg er á meðal þeirra sem nýttir verða fyrir Copa America Mynd: EPA-EFE - EFE

Boltinn fær að rúlla í Brasilíu

11.06.2021 - 06:43
Hæstiréttur Brasilíu gaf í gær grænt ljós á að Suður-Ameríkumótið í fótbolta færi fram þar í landi, þrátt fyrir að heimsfaraldur kórónaveirunnar geisi þar enn. Mótið á að hefjast á sunnudag og átti upphaflega að fara fram í Kólumbíu og Brasilíu í fyrra, en var frestað um ár.

Knattspyrnusamband Suður-Ameríku ákvað að Kólumbía gæti ekki haldið sinn hluta þess, vegna viðvarandi óaldar í landinu, og tók þá Argentína að sér að vera eini gestgjafi mótsins. Í liðinni viku sögðu Argentínumenn sig svo frá því að halda mótið vegna stöðunnar í kórónaveirufaraldrinum þar í landi. Brasilíska knattspyrnusambandið lýsti sig samdægurs reiðubúið að grípa boltann og halda þetta tíu þjóða mót í Brasilíu, þótt aðeins 13 dagar væru til stefnu.

Kært til hæstaréttar

Þetta féll ekki alstaðar í kramið og lögðu bæði Sósíalistaflokkurinn og brasilíska málmiðnaðarsambandið fram kröfu um að hæstiréttur bannaði mótið í ljósi aðstæðna, þar sem það fæli í sér óásættanlega ógn við líf og heilsu fólks. Forseti dómstólsins kallaði alla ellefu dómara við domstólinn til neyðarfjarfundar vegna málsins og þetta varð niðurstaðan, flautað verður til fyrsta leiks Suður-Ameríkumótsins í fótbolta á sunnudaginn kemur.

Krefjast sóttvarna

Dómararnir krefjast þess reyndar að knattspyrnusambandið og yfirvöld á hverjum stað geri ráðstafanir til að hindra útbreiðslu kórónaveirunnar á meðan á mótinu stendur, án þess þó að tilgreina hvernig það skuli gert. Því er víða fagnað að mótið skuli eiga að fara fram en annars staðar er það fordæmt.

Settar hafa verið fram kröfur um að áhorfendur verði ekki leyfðir á mótinu, heldur ekki á úrslitaleiknum, sem á að fara fram á Maracana-leikvanginum í Río de Janeiro 10. júlí. Þá munu gilda strangar reglur um liðin, ferðafrelsi þeirra er afar takmarkað og krafa gerð um COVID-19 próf á tveggja daga fresti. Hins vegar var fallið frá kröfu um bólusetningu allra leikmanna, þjálfara og annars starfsfólks liðanna.

Stuðningsaðilar og landslið óánægð með mótið

Þetta dugar þó skammt til að lægja óánægjuöldurnar og tveir af stærstu stuðingsaðilum keppninnar, Mastercard og bjór-risinn Ambev, tilkynntu í gær að þau ætluðu að segja sig frá öllum samningum sem henni tengjast. Áfengisframleiðandinn Diageo fylgdi svo fordæmi þeirra í gær.

Fjöldi leikmanna og nokkrir þjálfarar í hópi þeirra liða sem eiga að keppa hefur líka mótmælt, þar á meðal allt brasilíska landsliðið og þjálfari þess. Uppi voru sögusagnir um að liðið hygðist neita að taka þátt, en af því varð þó ekki, heldur sendi það frá sér sameiginlega yfirlýsingu á þriðjudag, þar sem knattspyrnukapparnir sögðust einfaldlega mótfallnir því að mótið yrði haldið. 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Mótmæla kröftuglega en ætla samt að vera með

Fótbolti

Kröfur um að banna Copa America fyrir hæstarétt

Fótbolti

Taka að sér Copa América með 13 daga fyrirvara

Fótbolti

Óvíst hvort S-Ameríkukeppnin í fótbolta verður haldin