Besti árangur Íslendings í kvennaflokki frá upphafi

Mynd með færslu
 Mynd: GSÍ

Besti árangur Íslendings í kvennaflokki frá upphafi

11.06.2021 - 11:47
Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, kylfingur, tryggði sér í morgun sæti í undanúrslitum á Opna breska áhugamannamótinu í golfi. Þetta er besti árangur íslensks kylfings í kvennaflokki á mótinu frá upphafi.

Keppnisfyrirkomulagið er þannig að leiknar eru 36 holur með höggleiksfyrirkomulagi og 64 efstu kylfingarnir komast áfram í næstu umferð þar sem holukeppni tekur við. Í holukeppni eru leiknar 18 holur í hverri umferð en úrslitaleikurinn er 36 holur. 

Jóhanna Lea mætti Kate Lanigan frá Írlandi í fjórðungsúrslitum í morgun. Þar hafði Jóhanna betur og mætir hún Shannon McWilliam frá Skotlandi í undanúrslitum. Shannon endaði í 32. sæti í höggleiknum en Jóhanna Lea endaði í 53. sæti í höggleiknum. Árangur Jóhönnu er besti árangur kylfings í kvennaflokki á mótinu frá upphafi.