ÁTVR borgaði bætur fyrir sölubann

11.06.2021 - 09:17
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins greiddi íslensku heildsölunni Rolf Johansen & Co. 13,6 milljónir króna í desember síðastliðnum í bætur fyrir að hafa með ólöglegum hætti neitað að selja neftóbak frá fyrirtækinu.

 Kjarninn greinir frá þessu.

Íslenskt bagg frá einkaaðila

Rolf Johansen kynnti til leiks munntóbakið Lunda haustið 2011. Lundinn var neftóbak að nafninu til, enda munntóbak ólöglegt á Íslandi, en rétt eins og neftóbak ÁTVR, hið íslenska bagg, var varan þó jafnan notuð í vör.

Um 600 kíló af Lunda seldust á fyrstu þremur dögum eftir að hann kom á markað, en varan var seld í gegnum ÁTVR enda hefur fyrirtækið einkaleyfi á heildsölu tóbaks á Íslandi.

Í janúar 2012 tók ÁTVR síðan þá ákvörðun að hætta innkaupum á Lunda og öllum öðrum tegundum reyklauss tóbaks á þeim forsendum að fá þyrfti úr því skorið hvort varan væri í raun munn- eða neftóbak.

Það var ekki fyrr en í júní 2019 sem ÁTVR komst að þeirri niðurstöðu að sér væri ekki stætt að banna aðrar tegundir munntóbaks.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson