Útlit fyrir að Ólympíuleikarnir 2032 verði í Brisbane

Mynd með færslu
 Mynd: - - Brisbane 2032

Útlit fyrir að Ólympíuleikarnir 2032 verði í Brisbane

10.06.2021 - 16:30
Það virðist nánast formsatriði að sumarólympíuleikarnir 2032 verði haldnir í áströlsku borginni Brisbane. Þetta var niðurstaða fundarhalda í dag milli IOC, Alþjóða Ólympíunefndarinnar og borgaryfirvalda í Brisbane og ástralskra yfirvalda.

Brisbane lýsti sig í febrúar áhugasama um að halda Ólympíuleikana 2032. Vaninn hefur verið síðustu ár hjá IOC að áhugasamar borgir sæki formlega um að halda Ólympíuleika níu árum áður. Við taki svo tveggja ára ferli sem hefur lokið með kosningu nefndarmanna IOC um hvar Ólympíuleikar verða haldnir að sjö árum liðnum.

Þetta kerfi hefur hins vegar ekki virkað sem skyldi síðustu ár. Framboð ýmissa álitlegra borga hafa verið dregin til baka á síðustu stundu ýmist vegna lítils stuðnings yfirvalda eða almennings. Þegar kom að því að úthluta sumarólympíuleikunum 2024 voru aðeins París og Los Angeles eftir í baráttunni og á endanum var ákveðið að semja við báðar borgir um að halda Ólympíuleika. París fékk leikana 2024 og Los Angeles samþykkti að halda leikana sumarið 2028.

Svipuð vandræði voru uppi þegar vetrarólympíuleikunum 2022 var úthlutað. Þá hætti Osló við seint í ferlinum, en það þótti nær fullvíst að Norðmenn myndu hreppa hnossið. Valið stóð þá á milli Peking í Kína og Almaty í Kaskastan og varð Peking niðurstaðan. Eins voru aðeins tvær borgir eftir um hituna þegar vetrarleikunum 2026 var úthlutað. Mílanó og Cortina d'Ampezzo á Ítalíu höfðu betur í baráttunni við Stokkhól og Åre í Svíþjóð.

Íslendingar alltaf unnið verðlaun í Ástralíu

Nú hefur IOC hins vegar gengið beint til samninga við Brisbane um sumarólympíuleikana 2032. Gert er ráð fyrir að samningar verði undirritaðir í Tókýó 20. júlí, þremur dögum fyrir setningu Ólympíuleikanna í Japan. Ástralir hafa tvisvar áður haldið sumarólympíuleika. Fyrst árið 1956 í Melbourne og síðast árið 2000 í Sydney.

Í bæði skiptin komust Íslendingar á verðlaunapall. Vilhjálmur Einarsson vann silfurverðlaun í þrístökki á leikunum í Melbourne og Vala Flosadóttir hreppti bronsverðlaun í stangarstökki í Sydney 2000.