Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Skiptast á skin og skúrir næstu daga

09.06.2021 - 06:58
Mynd með færslu
 Mynd: Belle Co - Pexels
„Næstu daga skiptast á skin og skúrir þar sem spár gera ráð fyrir lægðagangi. Skil með rigningu ganga þá allreglulega yfir landið en ólíkt stöðunni að undanförnu þar sem varla hefur sést til sólar sunnantil á landinu ætti að geta létt ágætlega til á milli lægðakerfa,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Gera má ráð fyrir að norðlægar áttir nái inná land milli lægða. Þar sem stutt er í kalda loftið norður af landinu má búast við að gráni í fjöllum á norðurhluta landsins á föstudag. 

Veðurstofan spáir austlægri átt, 5-13 m/s í dag, en hægari vindi á NA- og A-landi. Rigningu á sunnanverðu landinu og úrkomuminna norðantil. Hiti víða 8 til 15 stig, hlýjast NA-lands.

Á fimmtudag verður svo suðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s, en norðaustanátt 8-15 m/s NV-til. Víða rigning, þó síst NA-lands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á NA-landi, en 2 til 6 stig á Vestfjörðum.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV