Sigurhæðir opna á ný

Mynd með færslu
Ásthildur Sturludóttir og Kristín Þóra Kjartansdóttir undirrita samninginn Mynd: Akureyri.is - RUV
Hús skáldsins Matthíasar Jochumssonar á Akureyri hefur verið án skýrs hlutverks í nokkur ár. Akureyrarbær hefur nú undirritað samning við leigjendur sem ætla sér að glæða húsið aftur lífi með fjölbreyttu menningar- og viðburðastarfi.

Hús án hlutverks

Sigurhæðir setja mikinn svip á bæjarmynd Akureyrar þar sem það stendur í brekkunni rétt neðan Akureyrarkirkju. Húsið er frá árinu 1903 en þar bjó og starfaði skáldið Matthías Jochumsson.

Síðustu ár hefur húsið haft lítið sem ekkert hlutverk og verið á hálfgerðum hrakhólum innan bæjarkerfisins. Bæjaryfirvöld hafa til að mynda ítrekað óskað eftir aðkomu ríkisins að rekstri hússins en án árangurs. Haustið 2019 fyrirhugaði Akureyrarbær að selja húsið en hvarf frá sölunni eftir hávær mótmæli bæjarbúa. Þá var húsið auglýst til leigu og gengið frá samningum við Hótel Akureyri en sá samningur féll niður í kjölfar COVID-19 faraldursins.

Samningur undirritaður

Nú hefur húsinu hins vegar verið fengið hlutverk með leigusamningi við Flóru menningarhús ehf. til næstu fjögurra ára. Á vef Akureyrarbæjar segir að á samningstímanum verði Sigurhæðir nýttar undir margvíslega menningarstarfsemi og viðburðahald. Fólki muni gefast kostur til að halda þar smærri fundi, kynningar, námskeið og annað í þeim dúr. Einnig verði í húsinu vinnuaðstaða fyrir skapandi fólk, listamenn og frumkvöðla.  

Sigurhæðir fá nýtt líf

Flóra menningarhús hefur verið starfandi um árabil í Hafnarstræti á Akureyri undir stjórn Kristínar Þóru Kjartansdóttur. Þar hefur verið starfrækt verslun, haldnir viðburðir og vinnustofur staðið listafólki til boða. Kristín segir að jafnvel sé hægt að tala um einhvers konar flutning á starfsemi Flóru úr Hafnarstrætinu og yfir í Sigurhæðir. Markmiðið sé þó auðvitað að tengja starfsemina sögu Sigurhæða. Húsið sé fyrst og fremst þekkt fyrir að vera heimili og starfsstaður skáldsins Matthíasar Jochumssonar og því verði enn haldið á lofti. Kristín bendir þó á að Matthías hafi ekki búið einn í húsinu en þar bjuggu einnig kona hans Guðrún Runólfsdóttir, dætur þeirra tvær og Þóra systir Matthíasar. Þessar konur settu svip sinn á menningar- og bæjarlíf Akureyrar og er stefnan tekin á að sýna ólíka vinkla á sögu þeirra samhliða því að gera verkum Matthíasar skil.

Húsið opnara almenningi

Staðsetning og aðgengi að húsinu hefur að hluta til aftrað því að húsið hafi verið notað fyrir opinbera starfsemi. Ekki er mögulegt að komast með bíl að Sigurhæðum og er aðgengi fyrir hreyfihamlaða með versta móti. Það sé hins vegar stefnan að reyna að vinna með þessa staðsetningu eins og best verði á kosið. Í augum Kristínar er mikilvægt að húsið sé aðgengilegt almenningi. Þetta sé hús sem tilheyri sögu Akureyrar og í raun landsins alls og því gleðilegt að nú gefist fleirum kostur á að heimsækja húsið. Strax í sumar munu verða viðburðir í húsinu þó sjálft opnunarteitið fari ekki fram fyrr en næsta vor. Bæjarbúar og aðrir gestir megi þó gera ráð fyrir að síðsumars verði hægt að fara inn í þetta sögufræga hús þegar viðburðir fara fram.