Jafnt í Póllandi - Brynjar stimplaði sig inn með stæl

Mynd: EPA-EFE / PAP

Jafnt í Póllandi - Brynjar stimplaði sig inn með stæl

08.06.2021 - 15:30
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætti því pólska í vináttulandsleik ytra nú síðdegis. Ísland spilaði fínan leik og var 2-1 yfir þegar skammt var eftir en niðurstaðan 2-2 jafntefli.

Íslenska liðið fékk hornspyrnu á 24. mínútu. Guðmundur Þórarinsson tók hana, boltinn barst til fyrirliðans Arons Einars Gunnarsson og þaðan til Alberts Guðmundssonar sem kom honum í netið með hælnum en rangstaða flögguð. Eftir dúk og disk og myndbandsdómgæslu var markið dæmt gilt og staðan orðin 1-0 fyrir Ísland.  

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Það leið þó ekki á löngu áður en Piotr Zielinski jafnaði fyrir Pólland og staðan 1-1 í leikhléi eftir fínan fyrri hálfleik.  

Ein breyting var gerð á íslenska liðinu í leikhléi þegar Ögmundur Kristinsson kom í markið í stað Rúnars Alex.  

Strax í upphafi síðari hálfleiks fékk Ísland aukaspyrnu á fínum stað. Eftir fyrigjöf frá Guðmundi Þórarinssyni tók Brynjar Ingi Bjarnason, leikmaður KA, við boltanum inni í teig og negldi honum upp í þaknetið. Þetta var fyrsta landsliðsmark Brynjars sem er 21 árs gamall í sínu fyrsta landsliðsverkefni og það skorað með stæl. 

Mynd: Instagram (Brynjar Ingi) / RÚV

Þegar tvær mínútur lifðu leiks jöfnuðu Pólverjar aftur. Í þetta skiptið var þar á ferðinni Karol Swiderski sem gat þannig glatt um 20 þúsund manns sem mættir voru á völlinn í Poznan. Lokatölur 2-2.  

Pólland heldur nú á Evrópumótið en Ísland spilar næst í undankeppni HM í haust.