Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ellefu hjúkrunarfræðinga vantar á hjartaskurðdeild

05.06.2021 - 12:07
Mynd: Facebook / Facebook
Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir gagnrýnir tímasetningu á styttingu vinnuvikunnar sem komi niður á framleiðni á Landspítalanum. Ellefu skurðhjúkrunarfræðinga vanti á hans deild og telur hann að skýra megi hluta stöðugildanna með styttingu vinnuvikunnar.

Aðgerðir sem hafi þurft að bíða í eitt til tvö ár þurfi mögulega að bíða áfram vegna þess að 1. maí hafi ein skurðstofa verið tekin út einu sinni í viku og gjörgæslurúmum fækkað úr 13 í tíu vegna mikils halla á spítalanum. „Samt er Ísland uppselt í ágúst af ferðamönnum og við höfum alltaf verið með að minnsta einn útlending á gjörgæslunni hjá okkur yfir sumarmánuðina og jafnvel á veturna líka. Allir þurfa að vera meðvitaðir um að á meðan það eru svona vaxtarverkir þá er ekki hægt að láta þetta bitna á sjúklingum eða þeim sem veikastir eru.“

Tómas ítrekar að hann sé ekki á móti styttingu vinnuvikunnar. Innleiðingin hefði mátt vera betri þannig að ekki kæmi niður á framleiðni. 

„Á minni skurðdeild til dæmis vantar ellefu skurðstofuhjúkrunarfræðinga. Það er talið að þrjú til fjögur stöðugildi af þeim megi skýra með styttingu vinnuvikunnar og aðstoðarforstjóri Landspítalans sagði um daginn að þessi stytting kostaði spítalann tvo milljarða og 200 ný aukastörf. Ég er ekki að segja að þetta sé neikvætt en við erum ekki að sjá þessa peninga eða þessi störf koma inn á spítalann. Þá er ég svo hræddur við það að þetta verði bara ennþá meira álag á þeim sme fyrir eru og þeim líði ennþá verr í vinnunni. Þetta snýst ekki bara um lengd vinnutímans, þetta snýst um að vera ánægður í vinnunni. Að maður upplifi að maður hafi komið einhverju góðu áleiðis, klára aðgerðirnar og taka næsta sjúkling.“

Tímasetningin sé slæm og telur Tómas að það hefði mátt bíða með að fækka gjörgæslurýmum. Einnig hefði mátt bíða með að sameina vaktalínur þannig að sérhæfðir skurðhjúkrunarfræðingar í hjartaaðgerðum þurfi að hlaupa í keisaraaðgerðir á nóttunni. 

Rætt var við Tómas í Vikulokunum á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalsbrot í spilaranum hér fyrir ofan. Einnig var rætt við Önnu Kristínu Newton sálfræðing og Ragnheiði Agnarsdóttur stofnanda Heilsufélagsins. 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV