Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Til skoðunar að grípa til refsiaðgerða vegna tölvuárása

epa09243827 US President Joe Biden speaks in the Eisenhower Executive Office Building in Washington, DC, USA, 02 June 2021. Biden announced a plan to work with churches, colleges, businesses and celebrities to boost coronavirus vaccinations in the US, where demand for the shots has faltered.  EPA-EFE/Samuel Corum / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Bloomberg POOL
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, greindi frá því í gær að refsiaðgerðir séu til skoðunar vegna tölvuárása gegn kjötvinnslunni JBS. Yfirvöld í Bandaríkjunum rekja árásina til rússneskra glæpasamtaka, sem talið er að séu í samkrulli við stjórnvöld í Kreml.

Biden sagði við blaðamenn í gær að málið yrði jafnvel til umræðu þegar hann ræðir við Vladimír Pútín í Genf síðar í mánuðinum.

Bandaríkjastjórn telur nokkuð víst að Rússland hýsi í það minnsta tölvuglæpagengi að sögn AFP fréttastofunnar. Svipaður grunur vaknaði vegna árásar á Colonial eldsneytisleiðslurnar í síðasta mánuði. Bandaríska alríkislögreglan FBI telur gengin REvil og Sodinokibi á bakvið árásina á JBS. Sérfræðingar segja bæði nöfnin eiga við einn og sama hópinn sem er tengdur Rússlandi. Í yfirlýsingu sinni segist FBI vinna hörðum höndum að því að draga árásarmennina til ábyrgðar. 

Jen Psaki, talskona Hvíta hússins, býst við því að Biden taki málið upp á fundi sínum með Pútín í Genf um miðjan mánuðinn. Hún segir óásættanlegt að ríki hýsi glæpahópa sem hafi ekkert annað í huga en að valda skaða. AFP hefur eftir henni að Biden telji svo sannarlega að Pútín og stjórn hans hafi völd til þess að koma í veg fyrir þessar árásir eða stöðva þær.