
Til skoðunar að grípa til refsiaðgerða vegna tölvuárása
Biden sagði við blaðamenn í gær að málið yrði jafnvel til umræðu þegar hann ræðir við Vladimír Pútín í Genf síðar í mánuðinum.
Bandaríkjastjórn telur nokkuð víst að Rússland hýsi í það minnsta tölvuglæpagengi að sögn AFP fréttastofunnar. Svipaður grunur vaknaði vegna árásar á Colonial eldsneytisleiðslurnar í síðasta mánuði. Bandaríska alríkislögreglan FBI telur gengin REvil og Sodinokibi á bakvið árásina á JBS. Sérfræðingar segja bæði nöfnin eiga við einn og sama hópinn sem er tengdur Rússlandi. Í yfirlýsingu sinni segist FBI vinna hörðum höndum að því að draga árásarmennina til ábyrgðar.
Jen Psaki, talskona Hvíta hússins, býst við því að Biden taki málið upp á fundi sínum með Pútín í Genf um miðjan mánuðinn. Hún segir óásættanlegt að ríki hýsi glæpahópa sem hafi ekkert annað í huga en að valda skaða. AFP hefur eftir henni að Biden telji svo sannarlega að Pútín og stjórn hans hafi völd til þess að koma í veg fyrir þessar árásir eða stöðva þær.