Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sólblómaolíuframleiðandi í mál við Bandaríkjaher

03.06.2021 - 06:37
Erlent · Bandaríkin · Búlgaría · NATO · Evrópa
epa09239226 North Macedonia's soldiers take part in 'Decisive Strike 21' military exercise in the military camp at the Training Support Centre Krivolak, near Negotino, North Macedonia, 31 May 2021. The 'Decisive Strike 21' exercise is a part of the big NATO exercise with several international participants at the Training Support Centre (TSC) Krivolak. Around 1500 members of the armed forces from the following four countries will take part in the exercise: Republic of North Macedonia land forces, the United States of America with 300 soldiers, and special forces from Bulgaria and Greece.  EPA-EFE/GEORGI LICOVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Eigandi lítillar sólblómaolíuframleiðslu í Búlgaríu lagði fram kæru vegna innrásar bandarískra hermanna á verksmiðju hans. Hermennirnir voru við æfingar á vegum Norður-Atlantshafsbandalagsins, NATO, í síðasta mánuði þegar atvikið varð.

Hermennirnir æddu inn í verksmiðjuna 11. maí. Æfingin snerist um að ná völdum og tryggja öryggi á flugvellinum í Cheshnegirovo í sunnanverðri Búlgaríu. Þeir þurftu að vera vissir um að þeir væru með full völd á olíugeymslum og öðrum mannvirkjum, segir í yfirlýsingu Bandaríkjahers. Guardian hefur eftir yfirlýsingunni að hermennirnir hafi einnig farið inn í og tryggt öryggi í nærliggjandi byggingu sem þeir töldu hluta af æfingasvæðinu. Síðar kom í ljós að þar inni voru búlgarskir starfsmenn sólblómaolíuframleiðslunnar. Ekki var hleypt af vopnum segir í yfirlýsingu hersins.

Rumen Radev, forseti Búlgaríu, sagði algjörlega ótækt að lífi og ró almennra Búlgara sé stefnt í hættu af hermönnum, hvort sem þar sé um búlgarska herinn eða erlendan her að ræða. Æfingar á búlgörsku landsvæði ætti að auka á öryggistilfinningu fólks og traust til varnarsamstarfs, en ekki að vekja ótta. 

Bandaríska sendiráðið í Búlgaríu sendi fyrirtækinu og starfsmönnum þess afsökunarbeiðni. Þar sagði að alltaf sé dreginn lærdómur af æfingum sem þessum og rannsókn sé hafin á því hvað fór úrskeiðis. Reynt verði að tryggja að svona atvik komi ekki upp aftur.

Æfingin var liður í Swift Response 2021. Um 7.000 hermenn frá 10 NATO-ríkjum tóku þátt í æfingunni, sem var haldin í Eistlandi, Búlgaríu og Rúmeníu. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV