Slökunarapp borgar sektirnar

Mynd með færslu
 Mynd: Wiki Commons

Slökunarapp borgar sektirnar

03.06.2021 - 13:13
Forsprakkar slökunar/hvíldarsmáforritsins Calm hafa boðist til að greiða sektir tennisspilara sem kjósa að taka ekki þátt í blaðamannafundum af andlegum ástæðum.

Forsaga málsins er sú að hin japanska Naomi Osaka sem situr í öðru sæti heimslistans neitaði að taka þátt í fundunum á Opna franska risamótinu í tennis sem stendur nú yfir. Henni var í kjölfarið hótað að verða rekin úr mótinu og sektuð um 15 þúsund dollara. 

Osaka sem er 23 ára sagðist hafa glímt við félagskvíða og sagði blaðamenn ekki bera virðingu fyrir andlegri heilsu íþróttamanna. Hún ákvað frekar að hætta keppni í mótinu en að sætta sig við kvíðavaldandi aðstæður. 

Nýjustu vendingar í málinu eru þær að fyrirtækið Calm hefur boðist til að greiða sektina sem Osaka fékk og sömuleiðis fyrir aðra keppendur kjósi þeir að fara sömu leið og hún.