Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Einn vildi enn meiri vaxtahækkun

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Einn af fimm nefndarmönnum í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vildi hækka stýrivexti meira en gert var um miðjan maí.

Tilkynnt var um 0,25 prósentustiga hækkun stýrivaxta um miðjan maí eftir ríflegar lækkanir undanfarin tvö ár. Peningastefnunefnd Seðlabankans var þó ekki einhuga um ákvörðunina þótt allir nefndarmenn væru sammála um að hækka þyrfti vexti.

Í fundargerð peningastefnunefndar sem Seðlabankinn hefur birt kemur fram að Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, hafi lagt fram tillögu um hækkun upp á 0,25 punkta. Með því væri verið að senda skýr skilaboð um að nefndin hefði tæki til að koma verðbólgu aftur niður fyrir verðbólgumarkmið bankans, þó án þess að stefna efnahagsbatanum í hættu.

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, vildi þó hækka vexti um 0,5 prósentur. Í rökstuðningi hans segir að efnahaghorfur hefðu batnað umtalsvert og að grípa þyrfti fastar í taumana til að ná niður verðbólgu, enda hafi atvinnuleysi að líkindum náð hámarki.

Þótt niðurstaðan nú hafi orðið 0,25 punkta hækkun er almennt gert ráð fyrir að vextir haldi áfram að hækka út árið og að þeir verði jafnvel komnir upp í 1,25 prósent í árslok. Næsta stýrivaxtaákvörðun bankans er 26. ágúst.