Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Öllu skellt í lás við skemmtistaðagötu í Álaborg

02.06.2021 - 13:03
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Jomfru Ane Gade í Álaborg verður lokuð um hálfsmánaðar skeið svo draga megi úr útbreiðslu kórónuveirusmita í borginni. Sóttvarnarnefnd danska þingsins ákvað þetta í dag.

Gatan er þekkt fyrir fjölda skemmtistaða, veitingastaða og öldurhúsa og þangað sækir fjöldi fólks afþreyingu og skemmtun. Þar náði fjöldi fólks sér í COVID-19, samkvæmt niðurstöðu smitrakningar, og því var framangreind ákvörðun tekin. 

Danska ríkisútvarpið greinir frá þessu og hefur eftir Simon Kollerup atvinnuvegaráðherra að hann vonist til að aðgerðirnar dugi til að halda fjölgun smita í borginni í skefjum. Með þessu megi koma í veg fyrir viðamiklar lokanir um allt sveitarfélagið og áríðandi sé að missa ekki tök á útbreiðslunni. 

Fréttin var uppfærð klukkan 15:24