Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir málið grafalvarlegt og krefst skýringa frá Dönum

31.05.2021 - 13:59
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Utanríkisráðuneytið hefur krafist skýringa frá dönskum stjórnvöldum vegna fréttaflutnings um að bandaríska þjóðaröryggisstofnunin, NSA, naut aðstoðar leyniþjónustu danska hersins við að njósna um háttsetta stjórnmála- og embættismenn í Svíþjóð, Noregi, Frakklandi og Þýskalandi.

NSA notaði danska fjarskiptakapla til að hlera símtöl evrópskra ráðamanna, stofnana og fyrirtækja og fylgjast með hvers kyns rafrænum samskiptum í gegnum síma þeirra, með vitund og vilja leyniþjónustu danska hersins. Meðal þeirra sem njósnað var um með þessum hætti eru Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Frank-Walter Steinmeier, þáverandi utanríkisráðherra Þýskalands og núverandi forseti.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra út í málið í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

„Málið er grafalvarlegt og grefur augljóslega undan trausti í samskiptum þessara miklu vina og bandalagsþjóða. Utanríkisráðuneytið hefur krafist skýringa frá Dönum á þessu og komið áhyggjum okkar og vonbrigðum skýrt á framfæri. Utanríkisráðuneytið hefur enn fremur krafist þess að Danir upplýsi undanbragðalaust hvort þessar njósnir hafi beinst að íslenskum hagsmunum, þar með talið íslenskum stjórnmálamönnum, embættismönnum, stofnunum, fyrirtækjum eða einstaklingum hér á landi,“ sagði Guðlaugur Þór.

Embættismenn á vegum ráðuneytisins hafi rætt við staðgengil sendiherra Danmerkur hér á landi og við fulltrúa danska varnarmálaráðuneytisins. Þar hafi áhyggjum og vonbrigðum íslenskra stjórnvalda verið komið á framfæri.