Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óvíst hvort S-Ameríkukeppnin í fótbolta verður haldin

epa09230602 Sebastian Villa (R) of Boca Juniors in action against David Ramajo (L) of The Strongest during the Copa Libertadores group C soccer match between Boca Juniors and The Strongest at La Bombonera Stadium in Buenos Aires, Argentina, 26 May 2021.  EPA-EFE/Juan Mabromata / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL

Óvíst hvort S-Ameríkukeppnin í fótbolta verður haldin

31.05.2021 - 04:48
Suðurameríkukeppnin í fótbolta verður ekki haldin í Argentínu í sumar eins og til stóð „í ljósi aðstæðna sem nú eru uppi," segir í yfirlýsingu sem knattspyrnusamband Suður Ameríku, CONMEBOL, sendi frá sér í gær. Er þar vísað til þess að önnur bylgja heimsfaraldurs kórónaveirunnar geisar nú af miklum þunga í Argentínu, sem átti að vera annar tveggja gestgjafa keppninnar ásamt Kólumbíu.

Mótið, Copa America, átti að byrja eftir tvær vikur en næsta ómögulegt má heita að það gangi eftir þar sem hinn gestgjafinn, Kólumbía, er líka úr leik. CONMEBOL svipti Kólumbíu gestgjafahlutverkinu í síðustu viku vegna blóðugra átaka sem þar hafa geisað síðasta mánuðinn. Mikil óvissa ríkir því um framhaldið en í yfirlýsingu samtakanna segir að verið sé að fara yfir tilboð frá öðrum ríkjum sem lýst hafa áhuga á að halda mótið.

Argentínumenn á móti því að halda mótið

Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var á föstudag eru 70 prósent Argentínumanna á móti því að halda keppnina.  Einungis 20 prósent eru því fylgjandi en tíu prósent eru óviss.  COVID-19 heitar nú en nokkru sinni fyrr í Argentínu, nýsmitum fjölgar þar enn og níu daga allsherjarlokun er í gildi.

Suðurameríkumótið átti að fara fram í fyrra en var þá frestað um ár vegna COVID-19. Fyrr í þessum mánuði hafnaði COMNEBOL beiðni Kólumbíumanna um að fresta mótinu enn frekar vegna óaldarinnar í Kólumbíu. 
 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Ólympíuleikarnir verða í Tókýó óháð ástandi faraldurs

Ólympíuleikar

80% Japana á móti Ólympíuleikunum í Tókýó