Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svíar leita aðstoðar við mönnun sjúkrahúsa í sumar

Mynd með færslu
 Mynd: F. Sandberg - SVT
Félagsmálaráðherra Svíþjóðar, Lena Hallengren, á í viðræðum við dönsk og norsk yfirvöld um aðstoð við mönnun sjúkrahúsa í sumar vegna þess álags sem skapast hefur af völdum kórónuveirufaraldursins.

Danska ríkisútvarpið hefur þetta eftir sænska sjónvarpinu SVT. Þótt kórónuveirusjúklingum hafi fækkað á gjörgæsludeildum í Svíþjóð er enn uppi uggur um hvernig leysa eigi starfsmannamál í sumar.

Samkvæmt tölum sem birtar voru á Norðurlandavaktinni síðastliðinn þriðjudag liggja 21 á hverja milljón íbúa á gjörgæslu vegna COVID-19 í Svíþjóð, 105 liggja á sjúkrahúsi og 17 eru látin á hverja milljón íbúa síðastliðinn hálfan mánuð.

Allar þær hlutfallstölur eru mun lægra á hinum Norðurlöndunum. Staðfest smit á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur eru 412 í Svíþjóð og 245 í Danmörku sem hækkar meðalhlutfall Norðurlandanna í 235. 

David Konrad, yfirmaður skurð- og gjörgæsludeildar Karolinska háskólasjúkrahússins segir starfsfólk sem staðið hafi að umönnun sjúklinga með COVID-19 hafa verið lengi undir miklu álagi.

Hann segir erfitt verði að manna deildirnar í sumar, „Við höfum ekki nægilega margt starfsfólk, þannig að allt stefnir í að sumarið verði þungt.“

Sænsk yfirvöld hafa afnumið kröfu um að ferðafólk frá Norðurlöndum þurfi að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi. Frá og með 31. maí verður aftur heimilt að ferðast til landsins frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Íslandi.