Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vopnahléið er virt fyrir botni Miðjarðarhafs

epa09216973 Palestinians celebrate after a ceasefire between Israel and Gaza fighters, in Gaza City, 21 May 2021.  After 11 days of fighting and a ceasefire came into effect between Israel and militants in Gaza strip.  EPA-EFE/HAITHAM IMAD
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Vopnahlé Ísraelsmanna og Hamas-samtakanna, sem tók gildi klukkan ellefu í gærkvöld, hefur verið virt til þessa. Hernaðaraðgerðir síðustu ellefu daga kostuðu á þriðja hundrað manns lífið.
Gríðarlegur fögnuður braust út á Gaza þegar fréttir bárust af því að samkomulag hefði náðst um vopnahlé. Fólk flykktist út á götur, bílflautur voru þeyttar, tónlist var spiluð og hátalarakerfi í moskum voru notuð til að lýsa yfir sigri. Í Ísrael ríkti ró í fyrsta sinn í ellefu nætur. Almennir borgarar, sem fjölmiðlar ræddu við í morgun beggja vegna landamæranna, fögnuðu því að hernaðaraðgerðum væri lokið og að þeir gætu sofið rólegir á nóttunni án þess að hrökkva upp við loftvarnaflautur og sprengjugný. Samninganefndum Egypta er hrósað fyrir að hafa tekist að fá Ísraelsstjórn og Hamas-samtökin, ásamt Islamic Jihad, til að fallast á vopnahlé. Joe Biden Bandaríkjaforseti fór fögrum orðum um þær í ávarpi í gærkvöld. Hann vottaði samúð sína ættingjum þeirra sem féllu og óskaði þeim sem særðust góðs bata. Forsetinn hét því jafnframt að vinna með Sameinuðu þjóðunum og öðrum alþjóðasamtökum að mannúðaraðstoð við Gaza-búa. Tólf létust í eldflaugaárásunum á Ísrael, þar af tvö börn. Á Gaza féllu 243, þar á meðal 66 börn. Langflestir hinna látnu voru almennir borgarar. Hátt í tvö þúsund særðust og um 120 þúsund urðu að flýja heimili sín. Skemmdir á íbúðarhúsum og öðrum mannvirkjum eru verulegar. Landamæri Ísraels og Gaza voru opnuð í gærkvöld til að koma matvælum, lyfjum og öðrum nauðsynjavörum til bágstaddra. Vopnahléið hefur verið virt til þessa. Upp úr sauð þó við Al Aqsa moskuna á Musterishæðinni í Jerúsalem í dag. Palestínumenn segja að ísraelskir lögreglumenn hafi ráðist á þá eftir föstudagsbænir, beitt táragasi og kastað höggsprengjum. Talsmaður lögreglunnar sakar Palestínumenn um að hafa ráðist á laganna verði, kastað í þá grjóti og haft í hótunum.