Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svarar Tyrkjum og segist ekki ritskoða mál þingmanna

21.05.2021 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur ítrekað við forseta tyrkneska þjóðþingsins að hann ritskoði ekki þau mál sem íslenskir þingmenn setja fram. Hans hlutverk sé fyrst og fremst að meta hvort málin sem lögð eru fyrir þingið séu í samræmi við stjórnarskrá.

Þetta kemur fram í svarbréfi Steingríms til Mustafa Sentop, forseta tyrkneska þjóðþingsins. Steingrímur fékk bréf frá Sentop í síðustu viku vegna þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi um að Ísland viðurkenni þjóðarmorð á Armenum.

Talið er að allt að ein og hálf milljón manna hafi látið lífið í hernaði Tyrkja gegn Armenum á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Rúmlega 30 þjóðir hafa lýst hernaðinum sem þjóðarmorði en Tyrkir hafa ávallt neitað ásökunum um það. Þingsályktun um að viðurkenna þjóðarmorðið er nú lögð fram á Alþingi í sjöunda sinn. Að henni koma nú þrettán þingmenn úr fimm flokkum.

Bendir kollega sínum á að senda umsögn

Í bréfi sínu sagði Sentop meðal annars fram að málið myndi varpa skugga á samskipti Íslands og Tyrklands. Steingrímur sagði í svari sínu að íslenskir þingmenn hefðu tjáningarfrelsi og væru bara bundnir stjórnarskrá Íslands. Það sé skylda hans sem þingforseta að standa vörð um þau réttindi.

Þá bendir Steingrímur kollega sínum á rétta boðleið fyrir gagnrýni á þingsályktunartillögur sem er að senda viðeigandi þingnefnd umsögn um málið. Steingrímur ítrekaði jafnframt að hann tæki hvorki persónulega afstöðu í málum né léti hana hafa áhrif á hvort þau yrðu tekin fyrir á þinginu eða ekki. Hans skoðanir kæmu fram í atkvæðagreiðslum eftir afgreiðslu mála á þinginu.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, sagði við fréttastofu í vikunni að viðbrögð Tyrkja kæmu ekki á óvart.