Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Framtíðarstefna arfleifð formennsku Íslands

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Utanríkisráðherra er hæstánægður með nýafstaðinn ráðherrafund Norðurskautsráðsins og trúir því að fundur utanríkisráðherra Rússlands og Bandaríkjanna sé fyrsta skrefið að bættum samskiptum ríkjanna. 

Fundurinn í dag  markaði lok tveggja ára formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Utanríkisráðherrar ríkjanna átta, sem eiga aðild að þessum samstarfsvettvangi, ræddu málin og undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu. „Fundurinn var uppbyggilegur, jákvæður og það var alger samstaða um það að styrkja og efla Norðurskautsráðið enn frekar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Ríkin átta og frumbyggjasamtök sem tóku þátt í fundinum hafi verið á einu máli um að Ísland hafi staðið sig vel og að ráðið sé nú í sterkari stöðu en þegar Ísland tók við fyrir tveimur árum, á erfiðasta tíma í sögu ráðsins. En hver er arfleifð formennsku Íslands? Guðlaugur nefnir að í fyrsta sinn hafi verið samþykkt framtíðarstefna til tíu ára í stað tveggja eins og áður hefur tíðkast. „Auðvitað er þessi stefna í mörgum liðum en hún er algerlega í anda þess sem við höfum lagt áherslu á, sjálfbærni og að svæðið verði áfram lágspennusvæði.“

Stefnan endurspegli sjálfbærni í ýmsum skilningi

Spurður hvort eitthvað mætti ráða af stefnunni um framtíðarþróun svæðisins næstu árin, til dæmis þegar kemur að skipaumferð, uppbyggingu og olíuvinnslu svaraði Guðlaugur Þór því til að stefnan endurspeglaði áherslur Norðurskautsráðsins. „Ef við ætlum að einfalda þær þá snúast þær um sjálfbærni, ekki bara sjálfbærni þegar kemur að umhverfinu heldur líka félagslega og efnahagslega. Það eru fjórar milljónir sem búa á Norðurskautssvæðinu, þar með talir allir Íslendingar, og það á ekki að taka neinar ákvarðanir um framtíð þess án þess að íbúarnir komi að því.“

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands, Anthony Blinken og Sergei Lavrov, á fundi í Reykjavík en þeir sækja báður fund Norðurskautsráðsins.
 Mynd: Utanríkisráðuneytið

Fundur Lavrovs og Blinkens mikilvægur

Guðlaugur segir Reykjavíkurfundinn nú ekki síst mikilvægan vegna fundar utanríkisráðherra stórveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Rússlands, en töluverð spenna hefur verið í samskiptum ríkjanna.  Fundurinn hafi verið jákvæður og uppbyggilegur. „Við getum alveg verið vongóð um að þetta sé fyrsta skrefið í átt að bættum samskiptum.“

Ræddu viðskiptaþvinganir og mannréttindamál

Seinni partinn í dag fundaði Guðlaugur með Lavrov og tók meðal annars upp hversu harkalega hann telur viðskiptaþvingarnir Rússa bitna á Íslandi. Þvinganirnar eru svar Rússa við refsiaðgerðum Vesturlanda eftir innlimun Rússa á Krímsskaga. Einkum hafi þeir Lavrov þó rætt um mannréttindamál, svo sem mál rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnys. „Það er alveg ljóst að þar skilur á milli, við erum ekki sammála hvað þau mál varðar,“ segir Guðlaugur.