Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stýrivextir Seðlabanka hækkaðir um 0,25 prósentustig

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Vextir Seðlabanka Íslands hækka um 0,25 prósentustig. Þetta kemur fram í tilkynningu peningastefnunefndar bankans sem birtist á vefsíðu hans í morgun. Ástæða hækkunarinnar er mikil og viðvarandi verðbólga. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1% eftir hækkunina.

Í tilkynningu bankans segir að vegna þess að verðbólga hefur verið meiri og þrálátari en spáð hefur verið sé nauðsynlegt að hækka vexti til að tryggja kjölfestu væntinga í verðbólgumarkmiðum. Stýrivextir hafa verið óbreyttir í 0,75% frá því í nóvember.

Greiningadeild Íslandsbanka gerði ráð fyrir hækkun stýrivaxta um 0,25 prósent vegna mikillar og þrálátrar verðbólgu ásamt því að dregið hefði úr óvissu um komandi efnahagsbata. 

Spá gerði ráð fyrir því að yrðu vextir hækkaðir í dag héldi Seðlabankinn þeim óbreyttum fram á síðasta ársfjórðung, en eftir það yrði róleg hækkun.

Hagsjá Landsbankans áleit að vextir yrðu óbreyttir áfram, fram í ágúst. Þar á bæ var líklegra talið að peningastefnunefndin freistaði þess að beita fyrst öðrum úrræðum og stýritækjum áður en til vaxtahækkana kæmi. 

„Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma,“ segir í tilkynningu peningastefnunefndar.

Efnahagsbatinn var kröftugri á síðari hluta síðasta árs en áður var talið að því er fram kemur í maíhefti Peningamála og horfur á liðlega 3% hagvexti í ár. Spáð er yfir 5% hagvexti á næsta ári. Aukin innlend eftirspurn eftir vörum og þjónustu vegur þyngst í mati bankans á batnandi horfum.

Eins hafi atvinnuleysi hjaðnað þótt það sé enn mikið. Slakinn í þjóðarbúskapnum virðist því vera minni og útlit er fyrir að hann hverfi fyrr en áður var talið.

Fréttin var uppfærð klukkan 09:29.