Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Loka á stærsta fjölmiðil Hvíta-Rússlands

19.05.2021 - 03:13
epa08643495 Belarus President Alexander Lukashenko speaks with Russian Prime Minister Mikhail Mishustin (not seen) during their talks in Minsk, Belarus, 03 September 2020. Russian Prime Minister Mikhail Mishustin is on a visit to Minsk.  EPA-EFE/ALEXANDER ASTAFYEV / GOVERNMENTAL PRESS SERVICE / SPUTNIK POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - Sputnik
Hvít-rússneska lögreglan gerði húsleit í höfuðstöðvum stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtækis landsins í gær. Fyrirtækinu var gert að loka vefsíðu sinni, Tut.by. Fjölmiðillinn greindi frá því á samfélagsmiðlinum Telegram að vefsíðunni hafi verið lokað.

Deutsche Welle segir hvítrússnesk yfirvöld jafnframt saka fjölda fréttamanna miðilsins um skattsvik. Haft er eftir ritstjóranum Marinu Zolotovu að starfsmenn fjármálaeftirlitsins hafi leitað á heimili hennar og fjölda annarra starfsmanna. 

Tugir fjölmiðlamanna hafa verið handteknir í Hvíta-Rússlandi síðan úrslit forsetakosninganna voru kunngjörð í ágúst í fyrra. Þar greindi kjörstjórn frá því að Alexander Lukashenko hafi unnið öruggan sigur. Stjórnarandstæðingar telja stórfelld brögð vera í tafli, og hafa fjölmenn mótmæli verið í landinu allar götur síðan. Stjórn Lukashenko hefur hert tökin á völdum sínum í landinu, og skorið upp herör gegn mótmælendum og fjölmiðlum. Einn blaðamanna Tut.by var dæmdur í fimmtán daga fangelsi á mánudag fyrir að skrifa um réttarhöld yfir tólf stjórnarnandstæðingum. Annar blaðamaður var dæmdur í hálfs árs fangelsi í mars fyrir að rengja opinberar skýringar á láti mótmælanda.

Deutsche Welle greinir jafnframt frá því að einn starfsmanna þeirra hafi verið hnepptur í varðhald fyrir þátttöku í óheimilum mótmælum. 
Fjölmiðlafrelsissamtökin Blaðamenn án landamæra lýstu því nýlega yfir að Hvíta-Rússland væri hættulegasta land Evrópu fyrir blaðamenn.