Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja ekki að Ísland viðurkenni þjóðarmorð á Armenum

18.05.2021 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Forseti tyrkneska þingsins gagnrýnir í bréfi til Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis að tillaga um viðurkenningu Íslands á þjóðarmorði á Armenum hafi verið lögð fram á Alþingi. Flutningsmaður tillögunnar segir að viðbrögð Tyrkja komi ekki á óvart.

Talið er að allt að ein og hálf milljón manna hafi látið lífið í hernaði Tyrkja gegn Armenum á tímum fyrri heimsstyrjaldar. Rúmlega 30 þjóðir hafa lýst hernaðinum sem þjóðarmorði en Tyrkir hafa ávallt neitað ásökunum um að slíkt hafi átt sér stað.

Þrettán þingmenn úr fimm flokkum hafa nú lagt fram tillögu til þingsályktunar um að Ísland viðurkenni þjóðarmorðið en þetta er sjöunda sinn sem tillaga þessa efnis er lögð fram á Alþingi.

Í gær sendi forseti tyrkneska þingsins bréf til Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis þar sem hann segir að málið, verði það samþykkt, gæti varpað skugga á samskipti ríkjanna. Hann fer þess á leit að Steingrímur lýsi yfir andstöðu sinni við tillöguna. 

Andrés Ingi Jónsson flutningsmaður tillögunnar segir að viðbrögð Tyrkja komi ekki á óvart.

„Þetta var nú alveg viðbúið. Þeir bregðast alltaf frekar hart við tillögum af þessu tagi. En mér finnst nú reitt hærra til höggs en ég reiknaði með. Þarna eru ekki samskipti á milli sendiherra og þingmanna eins og þegar síðast var mælt fyrir málinu á Alþingi. Heldur er þingforseti Tyrklands að hafa samband við forseta Alþingis og mér finnst hann eiginlega gera því skóna að hann ætlist til að forseti sjái til þess að málið fari ekki á dagskrá,“ segir Andrés Ingi.

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis segir í samtali við fréttastofu að það sé ekki einsdæmi að erlend stjórnvöld geri athugasemdir við mál sem eru til meðferðar á Alþingi. Hann segir að bréfi Tyrkja verði svarað kurteislega en það hafi ekki áhrif á framgang tillögunnar á Alþingi. 

 

 

 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV