Um 5.000 förufólks komust til spænsku borgarinnar Ceuta

18.05.2021 - 01:16
epa09207749 Hundreds of young Moroccans cross the border with Spain along the coast next to the town of Castillejos, also known as Fnideq, Morocco, 17 May 2021. The Spanish Government Delegation in Ceuta has reported that the number of Moroccan illegal migrants who have managed to enter Ceuta is around 5,000 people.  EPA-EFE/Mohamed Siali
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Minnst 5.000 flótta- og förufólks komust inn í spænsku hólmlenduna Ceuta, á norðurodda Marokkós, í gær, fleiri en nokkru sinni fyrr á einum degi. Um eitt þúsund börn voru í þessum stóra hópi, samkvæmt frétt AFP. Spenna hefur færst í samskipti Spánar og Marokkós að undanförnu vegna sjúkrahúsvistar leiðtoga Polisario, sjálfstæðishreyfingar Vestur Sahara, á Spáni.

Talsmaður spænskra stjórnvalda í Ceuta segir fjöldann sem komst til borgarinnar í gær ekki eiga sér nein fordæmi. Hann segir fólkið ýmist hafa synt til borgarinnar frá marokkósku borginni Fnidaq eða gengið þangað á háfjörunni frá aðliggjandi ströndum Marokkós. Nær tveir kílómetrar eru á milli Fnidaq og Ceuta og mörg í hópi sundfólksins höfðu kúta sér til halds og trausts. Þá var eitthvað um að fólk færi þennan drjúga spöl á litlum gúmmítuðrum.

Spenna vegna sjúkrahúsvistar leiðtoga Polisario

Marokkóska lögreglan stóð aðgerðalaus hjá og er talið að það megi rekja til óánægju stjórnvalda í Rabat vegna aðstoðar Spánverja við Brahim Ghali, leiðtoga sjálstæðishreyfingarinnar í Vestur Sahara. Hann hefur notið aðhlynningar vegna COVID-19 á spænsku sjúkrahúsi síðan í apríl.

Um 85.000 manns búa að staðaldri í Ceuta, sem stendur á litlum odda við sunnanvert Gíbraltar sund. Ceuta er önnur tveggja hólmlenda Spánar á norðurströnd Marokkó. Hin heitir Melilla og er mun austar.