Skoða að létta á takmörkunum fyrr en áætlað var

18.05.2021 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Heilbrigðisráðherra segir stefna í að hægt verði að slaka á sóttvarnareglum eftir helgi. Ekkert kórónuveirusmit greindist innanlands í gær, í fyrsta skipti í rúmlega mánuð. Einn greindist á landamærunum og var sá með mótefni.

„Staðan er bara góð. Við virðumst vera búin að ná utan um þessi hópsmit sem hafa verið vítt og breitt þannig að við virðumst vera komin á mjög góðan stað,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Hún segir mögulega tilefni til að létta á takmörkunum fyrr en áætlað var.

„Mér sýnist að við getum stigið einhver skref strax eftir helgina. Það er nálægt því sem við vorum búin að ætla okkur, en við erum að skoða það, já,“ segir hún.

Samkvæmt afléttingaráætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir að 100 til þúsund manns fái að koma saman seinni hluta maí og að eins metra regla taki gildi. Ekkert kemur hins vegar fram í áætluninni um grímunotkun.

Hvenær má fólk taka grímurnar niður? 
„Það hlýtur að enda með því,“ segir Svandís.

Svandís segir að bólusetning gangi framar vonum. Ekkert sé þó að frétta af samningaviðræðum við Spútnik. Þá er til skoðunar að biðja Íslenska erfðagreiningu um að létta undir við greiningu sýna.

Indverska afbrigði kórónuveirunnar, sem hefur greinst á landamærunum hér á landi, er talið vera meira smitandi en ýmis önnur afbrigði. Þá kunna bóluefni sem notuð eru gegn veirunni að hafa minni vörn gegn afbrigðinu en öðrum. Bretar hafa til að mynda brugðist við útbreiðslunni með því að flýta seinni bólusetningu.

„Mitt fólk segir mér að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af stökkbreyttum afbrigðum. Sérstaklega þeim afbrigðum þar sem bóluefni virka ekki eins vel og á fyrri afbrigði. Það er alveg ljóst að þessi slagur er ekki búinn fyrr en heimbyggðin hefur í raun og veru sigrast á kórónuveirunni og afbrigðum hennar,“ segir Svandís.