Segir lagabreytingar „gjöf til glæpagengja“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
 Mynd: RÚV - Samsett mynd
Ástæða er til að óttast að Íslendingar séu að missa tökin á skipulagðri glæpastarfsemi. Glæpamenn misnota hælisleitendakerfið og ekki hafa verið stigin nauðsynleg skref til að stemma stigu við þessari þróun. Í stað þess að búa lögreglu nauðsynlegum tækjabúnaði er hún send á rétttrúnaðarnámskeið. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, á Alþingi í dag.

Sigmundur var málshefjandi í sérstakri umræðu um skipulagða glæpastarfsemi á Alþingi í dag. Hann sagði að skýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra staðfestu þetta og ekki hefðu verið stigin þau skref sem þyrfti til að stemma stigu við þessari þróun, heldur væri sífellt verið að senda lögreglumenn á ýmis námskeið.

„Af umfjöllun fjölmiðla að dæma virðist þetta einkum vera fræðsla um leyfilega orðræðu og táknfræði. Lögreglumenn hafa kvartað við mig um að verið sé að kenna þeim um orðræðu og setja þá á alls konar rétttrúnaðarnámskeið fremur en að búa þá undir verkefni sem verður sífellt erfiðara viðfangs,“ sagði Sigmundur.

„Engin ástæða er til að ætla að lögreglan á Íslandi sé haldin einhverjum sérstökum fordómum og þurfi einhverja sérstaka endurmenntun á því sviði,“ sagði Sigmundur Davíð.

Hann sagði að Sigríður Á. Andersen hefði í ráðherratíð sinni reynt að rétta kúrsinn en ekki haft erindi sem erfiði. 

„Hvað með úrræðin sem lögreglan kallar eftir?“ spurði Sigmundur. „Þekkingu, tækjabúnað, mannafla? Heimildir til að takast á við þennan breytta veruleika? Hvað með að laga kerfið til að gera okkur kleift að vísa glæpamönnum umsvifalaust úr landi?“

Segir glæpagengi misnota kerfið

Sigmundur sagði að erlend glæpagengi væðu uppi hér á landi og hefðu breytt glæpaheiminum með aukinni hörku, meira framboði sterkra fíkniefna, mansali og farandafbrotahópum. Þá misnotuðu þau hælisleitendakerfið og velferðarkerfið á Íslandi. „Hælisleitendakerfið er bæði notað til að koma inn glæpamönnum og fórnarlömbum þeirra.“

„Hvað leggur ríkisstjórnin til við þessar aðstæður?“ spurði Sigmundur. „Annars vegar lögleiðingu fíkniefna og hins vegar breytingar á hælisleitendakerfinu sem ganga þvert á það sem önnur Norðurlönd eru að gera til að koma í veg fyrir að kerfið sé misnotað af glæpagengjum. Þessar breytingar ríkisstjórnarinnar eru gjöf til glæpagengja sem munu eiga auðveldara með að selja fíkniefnin og lögreglan erfiðara með að grípa inn í.“

Segir samráð og samhæfingu lykilatriði

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tók undir að umsvif skipulagðrar glæpastarfsemi væru áhyggjuefni. Það væri mat ríkislögreglustjóra að skattaundanskot næmu um 4% af vergri þjóðarframleiðslu, eða um 100 milljörðum á ári. 

„Skaðsemi skattsvika og peningaþvættis er því gífurleg og nátengd skipulagðri brotastarfsemi,“ sagði ráðherra. Þessi mál væru flókin og lögreglumenn hefðu kallað eftir aukinni samvinnu stofnana.

„Til þess að geta tekið almennilega á þessum málum. Og þó að málshefjandi tali niður samráð og samhæfingu þá er það eitt af lykilatriðunum til að ná árangri í þessari umræðu,“ sagði Áslaug Arna.

Áður hefur komið fram að líklega starfi hér á landi að minnsta kosti 15 skipulagðir glæpahópar sem stundi ýmsar tegundir glæpa. Áslaug Arna sagðist binda vonir við stofnun lögregluráðs og að hlutverk embættis ríkislögreglustjóra hefði nú verið skilgreint betur. Þá væri nú áhersla lögð á aukið samstarf lögregluembætta, löggæslustofnanir efldar til að taka á peningaþvætti, aukið landamæraeftirlit og lögreglumönnum fjölgað.

„Þá höfum við lagt fjármagn í baráttuna; brot af þessu tagi eru gjarnan þaulskipulögð og flókin og það þarf búnað til að takast á við þetta.“

Ekkert mál hjá Útlendingastofnun eldra en 110 daga

Þessu til viðbótar nefndi Áslaug Arna heimildir í útlendingalögum til að auðvelda brottvísanir. „Þær eru skýrar og víðtækar, en það er nauðsynlegt að samræma verklagið milli lögreglu og Útlendingastofnunar í slíkum málum. Við höfum hraðað málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar og þar er ekkert mál eldra en 110 daga gamalt,“ sagði Áslaug Arna.