Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir að strandveiðikvótinn geti klárast í júlí

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan - RÚV
Framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir næsta öruggt að kvótinn fyrir strandveiðar klárist áður en tímabilinu lýkur í haust. Nú þegar er búið að veiða rúmlega tólf prósent af heildaraflanum sem gefinn var út fyrir sumarið.

Sami kvóti en fleiri bátar

Strandveiðar hófust 3. maí og nær tímabilið yfir sumarmánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Töluverður áhugi er veiðunum í ár og til marks um það hafa rúmlega 550 bátar fengið leyfi til veiða sem er fjölgun frá síðasta ári. Þessum bátum er heimilt að veiða rúm ellefu þúsund tonn af óslægðum botnfiski. Það er sama magn og við upphaf tímabilsins í fyrra en þá voru veiðarnar stöðvaðar um miðjan ágúst þegar aflaheimildir kláruðust. Erna Jónsdóttir, sviðsstjóri hjá Fiskistofu, segir ekki ólíklegt að það sama gerist í ár. „Það er svolítið erfitt að spá fyrir um það," segir Erna.

En það er ekkert ólíklegt miðað við að þetta fer svona bratt af stað?

 „Nei það er ekkert ólíklegt ef þetta er sambærilegt og í fyrra."

Hvetur stjórnvöld til að bæta við veiðiheimildum

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, kveður fastar að orði og segir að það sé ekki spurning hvort heldur hvenær veiðiheimildir klárast. „Eins og kerfið er núna þá eru hamlandi ákvæði sem geta stöðvað veiðarnar, jafnvel áður en júlí er allur, og við viljum sýna það, og vekja athygli stjórnvalda á því, að það þarf að gera eitthvað í málinu. Það er alveg ljóst að stjórnvöld þurfa að koma að málinu og bæta við veiðiheimildum, þannig að við getum stundað veiðar út allan ágúst." 
 

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Við löndun á Akureyri í maí