Peningar og stolt sem ráða för

epa09196427 A giant Olympic Rings monument is seen through a glass at Odaiba Marine Park in Tokyo, Japan, 12 May 2021 (issued 13 May 2021).  On 13 May 2021, the National Doctors Union requested the government to cancel the Tokyo Olympics, saying that the response to the coronavirus pandemic should be prioritized.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA

Peningar og stolt sem ráða för

18.05.2021 - 14:03
Á sunnudaginn verða akkúrat tveir mánuðir þar til sumarólympíuleikarnir í Tókýó verða settir. Ólympíuleikar sem áttu að fara fram í fyrra. Ólympíuleikar sem margir efast enn um að fari fram. Ólympíuleikar sem mikill meirihluti Japana vilja að verði aflýst ef marka má skoðanakannanir. Ólympíuleikar sem þó flest bendir til að verði haldnir og hefjist eftir akkúrat tvo mánuði.

Illa hefur gengið að hemja COVID-19 faraldurinn í Japan síðustu vikur og þar er höfuðborgin, Tókýó engin undantekning. Þar var lýst yfir neyðarástandi í lok apríl vegna fjölda kórónuveirusmita. Þá gengur bólusetning hægt. Aðeins um 3% íbúa í Japan hafa verið bólusettir gegn veirunni skæðu. Á sama tíma gerir IOC, Alþjóða Ólympíunefndin ráð fyrir um 10 þúsund heilbrigðisstarfsmönnum í vinnu við Ólympíuleikana í Tókýó í sumar, svo allt geti gengið vel. Þegar skipuleggjendur leikanna óskuðu eftir 500 hjúkrunarfræðingum til viðbótar nýlega gaus upp mikil reiði í Japan.

Sumarólympíuleikar eru ekki eins og hvert annað íþróttamót. Keppendur koma nefnilega frá allt að 206 ríkjum og keppt verður í 339 viðburðum í 33 mismunandi íþróttagreinum að þessu sinni. Yfir 11 þúsund íþróttamenn munu keppa á leikunum. Auk þess verða þúsundir þjálfara, dómara, sjálfboðaliða og fjölmiðlafólks á staðnum. Það er því ekki skrítið að enn sé talað um hvort Ólympíuleikunum verði ekki aflýst, þó aðeins séu tveir mánuðir til stefnu.

epa08850125 (FILE) - Passersby wearing protective masks walk past a postponed Tokyo Olympic Games advertising board in Tokyo, Japan, 12 November 2020 (reissued 29 November 2020). According to latest media reports, the Tokyo Olympics will likely cost an additional 200 billion yen (around 1.9 billion US dollar), due to new costs related to delays caused by the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA
Neyðarástand er í mörgum borgum Japans þessa dagana vegna COVID-19.

Í síðustu viku afboðaði bandaríska frjálsíþróttalandsliðið sig á mót í Tókýó, nokkurs konar prufuviðburð fyrir Ólympíuleikana. Ástæðan var einföld: fjöldi kórónuveirusmita í japönsku höfuðborginni og slæmt ástand. Ein af helstu stjörnum Japana, tenniskonan Naomi Osaka sagði líka nýlega að hún væri ekki sannfærð um rétt væri að halda Ólympíuleikunum til streitu miðað við núverandi ástand.

Ekkert plan B

En það bendir samt ekkert til annars en að leikarnir verði og þeir hefjist 23. júlí. Thomas Bach forseti IOC sagði nýlega: „Ég hef enga ástæðu til að trúa því ekki að Ólympíuleikarnir í Tókýó verði settir 23. júlí.“ Hann bætti svo við að það væri ekkert plan B. Leikarnir færu fram. En hvað ræður því? Varla er það skynsemi sem ræður för miðað við ástandið í dag og ástand síðustu mánaða. Nei, fyrst og fremst eru það peningar sem ráða för.

Ólympíuleikarnir í Tókýó og Ólympíumót fatlaðra, Paralympics hafa verið í undirbúningi í meira en áratug. Tókýóborg hreppti hnossið um að halda leikana sumarið 2020 eftir baráttu við Istanbúl og Madríd þegar meðlimir IOC kusu á milli borganna haustið 2013. Þá hafði staðið yfir rúmlega tveggja ára kosningabarátta. Undirbúningur fyrir framboð Tókýó hafði staðið enn lengur, þó svo að formlegur undirbúningur fyrir Ólympíuleikana hafi svo ekki byrjað fyrr en 7. september 2013 þegar Tókýó var valin sem gestgjafi Ólympíuleikanna 2020.

Stjarnfræðilegar upphæðir

Í grein Buisness Insider í lok febrúar var áætlaður kostnaður við að halda Ólympíuleikana í Tókýó 26 milljarðar dollara. Því sem nemur rúmlega 3,2 billjónum íslenskra króna. Þá er ekki átt við bandarísku billjónina, heldur þá íslensku. Íslenska hugtakið billjón er það sama og Bandaríkjamenn kalla trilljón. Til að setja hlutina í enn frekara samhengi þá lítur talan út svona miðað við núverandi gengi: 3.214.900.000.000 kr.

Frestun leikanna um eitt ár bætti 2,8 milljörðum dollara við áætlaðan kostnað við að halda leikana, að því er fram kemur í Buisness Insider greininni. Það hefur því verið lagt gríðarlega mikið til, svo hægt sé að halda Ólympíuleikana í Tókýó sómasamlega og þrotlaus margra ára vinna að baki. Peningar og vinna sem skipuleggjendur vilja ekki kasta fyrir róða. Það var heldur ekki einfalt mál að fresta Ólympíuleikunum og Paralympics um heilt ár. Allar íbúðirnar í Ólympíuþorpinu, þar sem íþróttafólkið mun dvelja, voru seldar og átti að afhenda kaupendum í lok síðasta árs. Það þurfti því að semja við kaupendur um ársfrest á afhendingu. Þá var búið að ráðstafa sumum íþróttamannvirkjunum í Tókýó í annað, breyta þurfti fjölda hótelbókanna, flugmiðum, semja við öll íþróttasamböndin um breytingu stórmóta sem átti að halda 2021 og þar fram eftir götunum. Þá þurfti auðvitað að fresta kyndilhlaupinu með Ólympíueldinn.

Stolt Japana

Ólympíueldurinn var þó kveiktur venju samkvæmt í Olympiu í Grikklandi 12. mars í fyrra þegar Tókýóleikunum hafði enn ekki verið frestað. Eldurinn hefur logað síðan, en kyndilhlaup með Ólympíueldinn hófst ekki í Japan fyrr en 25. mars 2021. Það var dagsetning sem margir fylgdust vel með. Ólympíusérfræðingar töldu nefnilega að ef kyndilhlaupið færi af stað á auglýstum tíma 25. mars í ár, þá yrði ekki aftur snúið og það yrði til marks um það að Ólympíuleikarnir yrðu haldnir í sumar, sama hvað. Japanskir borgarar hafa því hlaupið til skiptis með Ólympíueldinn núna í tvo mánuði og munu gera í tvo mánuði í viðbót þar til leikarnir verða loks settir í Tókýó 23. júlí.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Tókýó átti að halda Ólympíuleikana 1940, en ekkert varð af þeim vegna seinni heimsstyrjaldarinnar.

En þetta snýst vitaskuld líka um stolt Japana og japanskra skipuleggjenda leikanna. Ólympíuleikum sem úthlutað var til Tókýó hefur einu sinni áður verið frestað. Það voru leikarnir sem átti að halda sumarið 1940. Seinni heimsstyrjöldin kom hins vegar í veg fyrir að leikarnir yrðu haldnir. Í febrúar á næsta ári halda Kínverjar svo vetrarólympíuleikana 2022 í Peking og nágrenni. Þar verður miklu til kostað og Japanir vilja helst ekki vera með sært stolt þá yfir því að þeirra Ólympíuleikum hafi verið aflýst og horfa svo upp á nágranna sína í Kína blása í lúðra með vetrarleika í febrúar. Stoltið spilar inn í, en fyrst og fremst eru það peningarnir sem ráða för.

Sjónvarpsstöðvarnar eiga mikið undir

IOC hagnast gríðarlega á sumarólympíuleikum og er ekki til í að sleppa tökunum á þeim gróða í eitt skipti, þó heimsfaraldur geysi. Um 73% af innkomu IOC er í gegnum sjónvarpsréttasamninga og 18% til viðbótar koma frá stórum fyrirtækjum sem eru bakhjarlar og kostendur Ólympíuhreyfingarinnar. Eða réttar er að tala um samstarfsaðila, því sjónvarpsstöðvarnar og fyrirtækin fá heldur betur sitt út úr samstarfinu við IOC líka.

Sjónvarpsstöðvar keppast um sýningarréttinn frá Ólympíuleikum. Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hefur lagt allt kapp á að halda sínum rétti og árið 2014 samdi NBC beint við IOC um sýningarréttinn á öllum sumar- og vetrarólympíuleikum frá og með 2022 til og með 2032 fyrir 7,75 milljarða dollara. Það er ekki lengur sjálfgefið að ríkissjónvarpsstöðvar landa kræki í sýningarréttinn frá Ólympíuleikum. Á Norðurlöndunum hafa bæði Svíar og Norðmenn misst sýningaréttina yfir til einkastöðva. Sjónvarpsstöðvarnar, sérstaklega þær stóru og þær sem borga mest fyrir samstarfið þrýsta því líka á að leikarnir verði haldnir. Til marks um áhrif sjónvarpsstöðvanna þá eru það fyrst og fremst þær sem ráða því að Ólympíuleikarnir séu haldnir yfir hásumarið í Japan, þegar hitinn er sem mestur. Þá er glufa í sjónvarpsdagskránni fyrir Ólympíuleikana.

Aðeins IOC getur aflýst leikunum

En jafnvel þótt japönsk stjórnvöld myndu vilja aflýsa Ólympíuleikunum í Tókýó á síðustu metrunum er það hægar en sagt en gert. Í samningi IOC og Tókýóborgar kemur skýrt fram að rétturinn til að aflýsa leikunum er allur á höndum IOC. Réttur gestgjafans til þess er ekki til staðar. Ólympíuleikarnir eru nefnilega eign IOC, ekki heimaborgarinnar. Ef japönsk stjórnvöld myndu ákveða að aflýsa Ólympíuleikunum einhliða yrði það eitt stærsta tryggingamál sögunnar.

Heilsa almennings í Japan er látin mæta afgangi. Ólympíuleikarnir skulu haldnir sama hvað. Það þarf mikið að gerast úr þessu til að Ólympíuleikunum í Tókýó verði aflýst. Þeir munu hefjast 23. júlí, að tveimur mánuðum liðnum, sama hvernig ástandið í Tókýó og víðar verður.

epa08760810 Staff from the Organizing Committee of the Tokyo 2020 Olympic and Paralympic Games stand in front of the emblem of Tokyo 2020 Olympic Games during a screening test in Tokyo Big Sight, in Tokyo, Japan, 21 October 2020. The screening measures, including COVID-19 coronavirus countermeasures, are part of the effort to ensure the safe and secure running of the Olympic Games, which are due to take place from 23 July 2021 to 08 August 2021, after being postponed for one year due to the COVID-19 coronavirus pandemic.  EPA-EFE/KIMIMASA MAYAMA
 Mynd: EPA
Andstaða almennings í Japan við Ólympíuleikana í Tókýó er mikil.

IOC vinnur nú að því að meirihluti þeirra sem munu búa í Ólympíuþorpinu á meðan Ólympíuleikunum í Tókýó stendur verði bólusettir fyrir kórónuveirunni. Í dag greindi stærsta dagblaðið í Japan, Yomiuri Shimbun að bólusetning hjá japönsku íþróttafólki myndi hefjast 1. júní og allir íþróttamenn ættu að hafa fengið fyrri bóluefnisskammtinn í síðasta lagi í lok júní. Það eru um 2500 manns, 1000 íþróttamenn og 1500 þjálfarar sem fá bóluefni frá Pfizer/BioNTech í gegnum samning IOC við Pfizer. Það geri vonandi sitt gagn. Hins vegar er ljóst að Ólympíuleikarnir í sumar verða frábrugðnir öllum öðrum Ólympíuleikum. Áhorfendur verða í algjöru lágmarki og frelsi íþróttafólks, þjálfara, dómara, sjálfboðaliða og fjölmiðlafólks takmarkað.

Mantra skipuleggjenda Ólympíuleikanna í Tókýó hefur þó verið núna í rúmt ár að leikarnir eigi að tákna von. Von um bjartari tíma fram undan um allan heim. Margar aðrar borgir í Japan virðast hins vegar ekki eins vongóðar og skipuleggjendur í Tókýó. Sumar af þeim borgum sem áður höfðu boðið íþróttafólk velkomið í æfingabúðir dagana fram að keppni á leikunum í Tókýó hafa á síðustu dögum afturkallað boð sín. Það sé ekki verjandi að frátaka spítalarúm fyrir erlent íþróttafólk í miðjum heimsfaraldri sem Japanir hafa ekki náð að beisla.

Miklar líkur á því að Ólympíuleikarnir verði í sumar

Miklar líkur er á því Ólympíuleikarnir í Tókýó verði haldnir í sumar þrátt fyrir úrtölur og andstöðu. Þetta verða þó aldrei Ólympíuleikarnir sem skipuleggjendur sáu fyrir sér þegar Tókýóborg hafði betur í baráttunni við Istanbúl og Madríd fyrir átta árum síðan. Það er COVID-19 að kenna. Það er þó ekki þar með sagt að þetta verði ekki góðir Ólympíuleikar. Sjónvarpsáhorfendur ættu til dæmis ekki að verða sviknir. Þeir fá að horfa á flest af besta íþróttafólki veraldar. Íþróttafólki sem mun ekkert gefa eftir í átt að draumum sínum. Íþróttafólkið hefur lagt mikið á sig til að komast á Ólympíuleikana í Tókýó, við erfiðar aðstæður og mun leggja allt í sölurnar að gera leikana í Tókýó sem besta og ná sjálft sem bestum árangri.

Höfundur hefur starfað sem íþróttafréttamaður frá 2008, farið á tvenna sumarólympíuleika og fjallað um samtals sex sumar- og vetrarólympíuleika.