Gerir nákvæmar eftirmyndir af kindum úr ull

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV/Landinn

Gerir nákvæmar eftirmyndir af kindum úr ull

18.05.2021 - 07:50

Höfundar

„Ég byrja alltaf á augunum. Mér finnst augað gera mynd lifandi,“ segir Jennifer Please, sem er jafnan kölluð Jenny. Í vinnuherbergi sínu í Garði við Kópasker vinnur Jenny með nálþæfingu að mynd úr ull af kind sem var henni kær.

„Þetta er Hekla, þetta var fyrsta kindin sem ég fékk þegar ég flutti hingað, fyrir átta ár síðan og ég á ennþá fjögur lömb undan henni,“ segir Jenny. 

Langaði alltaf til að eignast kind

Undanfarin ár hefur Jenny þróað aðferðirnar og stílinn á myndunum undir merkjum Spólu Iceland, og gerir nákvæmar eftirmyndir kinda, en hún hóf að vinna með ull þegar hún flutti til landsins frá Englandi. Jenny hafði lengi langað til að eignast kind, síðan hún var á ferðalagi á Nýja-Sjálandi sem barn.
 
Tengdafjölskylda Jenny er með fjárbú á Núpi í Öxarfirði, skammt frá Garði - og þar eiga nokkrar kindanna í verkum hennar sér fyrirmyndir. „Mér finnst mest gaman ef það er kind fá okkur, þá þekki ég karakterinn og get látið hann koma fram í myndinni,“ segir hún.  

Fólk óskar eftir myndum af uppáhaldskindum

Jenny er kennari í Öxarfjarðarskóla þar sem hún kennir yngstu börnunum, handmennt og myndmennt. Hún er líka þriggja barna móðir en nýtir þann tíma sem hún hefur í myndirnar. Hún getur verið um tvær vikur að gera hverja mynd en líka talsvert lengur. Nokkuð er um að fólk biðji Jenny um að gera uppáhaldskindur sínar eftir ljósmyndum og Jenny reynir þá að nota líka þeirra ull.