„Eins og að bíða eftir sjúkdómsniðurstöðu hjá ástvini“

Myndir teknar 13. maí
 Mynd: Gísli Berg - RÚV

„Eins og að bíða eftir sjúkdómsniðurstöðu hjá ástvini“

18.05.2021 - 11:04

Höfundar

Laufey Helga Guðmundsdóttir, ritari FÁSES, segir að félagar hafi lítið sofið vegna síðustu vendinga í Eurovision-heiminum. Öll hafi þau legið á „refresh“-takkanum og beðið fregna af Gagnamagninu sem greindist covid-neikvætt í gær. Hún býst við rosalegum fyrri riðli í sjónvarpinu í kvöld. 

„Maður er bara ekkert búin að sofa,“ segir Laufey Helga um síðustu daga. Í gærkvöldi bárust loks fréttir af því að enginn íslensku listamannanna væri smitaður og því lítur út fyrir að þau fari á svið í seinni undanúrslitum keppninnar á fimmtudag. „Um leið og við fréttum að upp væri komið smit í pólsku sendinefndinni vissum við að þetta gæti gerst í íslenska hópnum, sem er á sama hóteli,“ segir Laufey Helga og bætir við að hún og allir í FÁSES fagni því mjög að Gagnamagnið hafi verið bólusett fyrir ferðina. Alveg sérstaklega vegna þess að Árný Fjóla er gengin um sex mánuði á leið. 

Smitið kom á besta tíma

„Þessi 30 tíma bið var bara eins og að bíða eftir sjúkdómsniðurstöðu hjá ástvini. Líf okkar er svo samfléttað íslenska hópnum á þessum tíma árs. Fyrir vikið er ég orðin hálfgerð sóttvarnalögga,“ útskýrir Laufey og bætir við að félagar í FÁSES hafi talað mikið saman og haldið hvoru öðru rólegu. 

„Í raun hefði þetta ekki getað komið á betri tíma í keppninni, eftir báðar sviðsæfingar íslenska hópsins sem gengu mjög vel. Og í sannleika sagt skiptir túrkísdregillinn, opnunarhátíð Eurovision, sem íslensku listamennirnir misstu af, minnstu máli í keppninni. Það sem öllu skiptir eru dómararennslin og útsendingarnar. Að því sögðu hefðu þau auðvitað verið æðisleg á dreglinum, ég efa það ekki,“ segir hún bjartsýnin uppmáluð. 

Laufey er reiðubúin fyrir fyrsta stóra kvöldið, sem er í kvöld, fyrri undanriðil Eurovision þetta árið. „Þetta er rosalegur riðill! Ég er eins tilbúin og hægt er að vera. Reyndar mjög ósofin en það fylgir þessum tíma þegar Eurovision stendur yfir.“ Hún og fleiri FÁSES-liðar halda úti virkum fréttaflutningi af keppninni í ár á síðu sinni.

Bein útsending hefst í Sjónvarpinu kl. 19 í kvöld. Þar keppa 16 lönd um tíu laus sæti í úrslitunum á laugardaginn. Gísli Marteinn Baldursson lýsir keppninni eins og honum einum er lagið en í þetta skipti frá hótelherbergi en ekki úr höllinni.

Úkraínska Eurovision atriði á æfingu í Rotterdam 2021
 Mynd: EBU
Úkraína er næstsíðust á svið í fyrri riðlinum í kvöld og er spáð góðu gengi.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Engin fleiri smit hjá íslenska Eurovision-hópnum

Menningarefni

Kálfar á bæ Árnýjar fengu nöfnin Gagna og Magna

Menningarefni

„Ég var ekkert vinsæl í skólanum“

Menningarefni

Gagnamagnshljóðfærin verða á sviðinu, sama hvað