Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Danir opna (næstum) allt upp á gátt

epa08327536 The windows of SAS Hotel Royal lit in the shape of a heart to send a messages of love during the COVID-19 coronavirus crisis in Copenhagen, Denmark, 27 March 2020.  EPA-EFE/Philip Davali  DENMARK OUT
SAS-hótelið í Kaupmannahöfn. Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Samkomulag náðist á danska þinginu í nótt um næstu skref í afnámi hvers kyns takmarkana vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Í stuttu máli má segja að náðst hafi samkomulag um að aflétta því sem næst öllum takmörkunum í daglegu lífi fólks frá og með næsta föstudegi.

 

Engar hömlur verða þá á þjónustu veitinga- og kaffi- og öldurhúsa, leikhúsa, sundlauga, íþróttahalla, kvikmyndahúsa og safna og sambærilegra fyrirtækja. Þá hefst full staðkennsla í öllum grunn- og framhaldsskólum landsins. Nánast einu staðirnir sem ekki fá að hefja eðlilega  starfsemi á föstudaginn eru diskótek og næturklúbbar landsins.

Ekki verður þó horfið frá 2.000 manna þaki á fjöldasamkomur utandyra til 1. ágúst og 5.000 manna þaki eftir það og reglur um samskiptafjarlægð og ýmislegt fleira sóttvarnatengt gilda líka áfram á mörgum stöðum.

Fyrri bóluefnaskammtur opnar flestar dyr

Það á líka við um bólusetningar- og mótefnapassann, sem verið hefur í notkun í Danmörku um hríð og verður í notkun eitthvað fram eftir sumri hið minnsta. Sú breyting var þó gerð að nú opnar kvittun í bóluefnapassanum upp á minnst tveggja vikna gamlan fyrri bóluefnaskammt flestar dyr, þar sem áður dugði ekkert minna en uppáskrift upp á minnst jafn gamla, fulla bólusetningu.

Starfsfólk hins opinbera aftur á sinn stað

Samkomulagið gerir líka ráð fyrir því að koma opinberu starfsfólki sem unnið hefur að heiman síðustu vikur aftur á sinn eiginlega vinnustað, í þremur áföngum. Fimmtungur þeirra á að snúa aftur á sína vinnustöð á föstudaginn og frá og með 1. ágúst eiga öll að vera búin að loka heimakontórnum og koma sér fyrir á sínum gamla vinnustað.