Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Viljum fá að vera með í þessari heildaruppbyggingu"

17.05.2021 - 16:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Verkefnisstjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands segir að breytingar sem gerðar hafa verið á markaðssetningu Akureyrarflugvallar séu úr takti við yfirlýsingar stjórnvalda um að efla millilandaflug á landsbyggðinni. Hann óttast að tækifærum eigi eftir að fækka.

Styrkir lækka um 12 milljónir

Markaðsstofa Norðurlands hefur til þessa séð um að markaðssetja Akureyrarflugvöll. Stofan hefur árlega fengið um 20 milljónir til verkefnisins. N4 sagði fyrst frá málinu. Með breytingum sem nú hafa verið boðaðar mun Isavia og Íslandsstofa nú halda utan um þessa vinnu og hafa styrkir til Markaðsstofu Norðurlands því verið lækkaðir niður í átta milljónir. Isavia og Íslandsstofa markaðssetur því framvegis völlinn í samvinnu við Markaðsstofu Norðurlands. Hjalti Páll Þórarinsson er verkefnisstjóri hjá markaðsstofunni. 

„Okkur finnst þetta ekki í takt við stefnu stjórnvalda"

„Að sjálfsögðu erum við ósátt, það er vissulega verið að draga verulega úr þeim fjármunum sem við höfum og þetta minkar okkar tækifæri og okkur finnst þetta ekki í takt við þá stefnu stjórnvalda að opna fleiri gáttir inn í landið," segir Hjalti.

„Ekki stórir peningar"

Hann segir upphæðirnar sem um ræðir lágar í stóra samhenginu. „Þarna erum við að tala um örfáa tugi milljóna til heildar fjárfestingu til markaðssetningar og á þessum svæðum á flugvöllunum hérna á Akureyri og á Egilsstöðum. Það eru auðvitað ekki stórir peningar í heildar myndinni. Þegar við erum að horfa til dæmis á fjárfestingu á Keflavíkurflugvelli upp á 15 milljarða. Þannig að frá okkur bæjardyrum séð þá viljum við fá að vera með í þessari heildar uppbyggingu þannig að áherslan sé sett á fleiri staði en bara einn."