Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Viðbúnaður er Blinken lendir í kvöld

epa08987648 US Secretary of State Antony Blinken introduces US President Joe Biden (not pictured) at the US State Department in Washington, DC, USA, 04 February 2021. Biden announced that he is ending US support for the Saudi's offensive operations in Yemen.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EFE - EPA
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er væntanlegur til landsins í kvöld. Lögreglan er með mikinn viðbúnað vegna komu hans og annarra utanríkisráðherra sem sækja ráðherrafund Norðurskautsráðsins í vikunni.

Blinken er nú í opinberri heimsókn í Danmörku en heldur þaðan til hingað til lands. Áætlað er að flugvél hans lendi í Keflavík á áttunda tímanum í kvöld. Blinken mun eiga fundi með forseta Íslands, forsætisráðherra og utanríkisráðherra á morgun.

Augu heimsins verða á fundi Blinkens og Sergeis Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sem væntanlegur er til landsins á miðvikudaginn. Þetta er fyrsti fundur háttsettra ráðamanna þessara ríkja frá því Joe Biden tók við embætti forseta og hefur fundarins verið beðið með mikilli eftirvæntingu, enda samskipti stórveldanna afar stirð um þessar mundir.

Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins verður svo á miðvikudag og fimmtudag.

Mikill viðbúnaður er vegna fundarins og verða yfir hundrað manns frá Ríkislögreglustjóra og lögregluembættunum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum á vakt frá því Blinken lendir í kvöld og þar til fundi lýkur á fimmtudagskvöld. Mesti viðbúnaðurinn verður í kringum Blinken og Lavrov en með þeim verður fjölmennt fylgdarlið, meðal annars vopnaðir öryggisverðir. Mesti viðbúnaðurinn verður vitaskuld í Hörpu þar sem fundir ráðherranna verða. Þar verður leitað í hverjum krók og kima, meðal annars með aðstoð sprengjuleitarhunda.

Að sögn Jóns Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá Ríkislögreglustjóra, er viðbúnaðurinn álíka mikill og þegar Mike Pence, þáverandi varaforseti Bandaríkjanna, kom í heimsókn. Þótt færri séu í fylgdarliði utanríkisráðherra en varaforseta vegur á móti að fjöldi utanríkisráðherra er mikill. Það einfaldi þó skipulagninguna að flestir viðburðirnir eru í Hörpu og verður almenningur einna helst var við umstangið þegar bílalestir ráðherranna aka frá flugvelli eða dvalarstað á fundarstað.