Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Valur vann Reykjavíkurslaginn

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RUV

Valur vann Reykjavíkurslaginn

17.05.2021 - 21:14
Fjórðu umferð úrvalsdeildar karla í fótbolta lauk í kvöld með fjórum leikjum. Stórslagur umferðarinnar var leikinn í vesturbæ Reykjavíkur. Þar tóku Íslandsmeistarar 2019 á móti Íslandsmeisturum 2020.

Valsmenn höfðu sjö stig fyrir leikinn í kvöld en KR fjögur stig. Stigin þrjú sem í boði voru í kvöld voru því báðum liðum afar mikilvæg. Á níundi mínútu kom Pálmi Rafn Pálmason í KR boltanum á Guðjón Baldvinsson sem skoraði og kom heimamönnum í KR 1-0 yfir. Þannig virtist staðan ætla að vera í hálfleik, en á markamínútunni, þeirri fertugustu og fjórðu bauð Færeyingurinn Kaj Leó í Bartalsstovu upp á flotta hornspyrnu sem Sebastian Hedlund skallaði í markið og jafnaði metin fyrir Val í 1-1.

Það var svo skammt liðið af seinni hálfleik þegar Kristinn Freyr Sigurðsson tíaði boltann upp fyrir Hauk Pál Sigurðsson fyrirliða Vals sem smellti knettinum í mark KR og kom Val 2-1. Sex mínútum síðar svaf Grétar Snær Gunnarsson á verðinum í liði KR. Patrick Pedersen hirti af honum boltann og reykspólaði fram völlinn. Kristinn Freyr fékk svo knöttinn og renndi honum til Sigurðar Egils Lárussonar sem þakkaði fyrir og kom Val í 3-1.

Nú voru Valsmenn komnir í stuð og á 58. mínútu átti Valur aukaspyrnu sem Kaj Leó skaut í slána. Kjartan Henry Finnbogason kom svo inn á fyrir KR á 60. mínútu í sínum fyrsta leik síðan 2014. Hann átti skalla á mark Vals tveimur mínútum síðar sem Hannes Þór Halldórsson gerði vel í að verja. En þetta hleypti samt lífi í KR-inga sem kræktu í vítaspyrnu 20 mínútum fyrir leikslok þegar brotið var á Stefáni Árna Geirssyni. Pálmi Rafn Pálmason tók að sér að taka vítaspyrnuna. Hann skoraði af miklu öryggi og minnkaði muninn fyrir KR í 3-2. Það urðu lokatölur leiksins.

Valur hefur 10 stig í toppbaráttunni eins og Víkingur, FH, sem vann 3-1 útisigur á HK í kvöld og KA sem vann 4-1 sigur í Keflavík. Í fjórða leik kvöldsins gerðu svo ÍA og Stjarnan markalaust jafntefli á Akranesi. Hvorugt lið hefur enn unnið leik á leiktíðinni, rétt eins og HK og Fylkir.