Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Það er ómögulegt að spila án hans“

epa09204995 Barcelona's Leo Messi in action during the Spanish LaLiga soccer match between FC Barcelona and Celta Vigo held at Camp Nou stadium in Barcelona, Spain, 16 May 2021.  EPA-EFE/Alejandro Garcia
 Mynd: EPA-EFE - EFE

„Það er ómögulegt að spila án hans“

17.05.2021 - 09:51
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Barcelona, segir ómögulegt að spila án Lionel Messi. Barcelona tapaði 1-2 fyrir Celta Vigo í gærkvöld sem gerði út um vonir þeirra um titilinn.

Ferill Messi hjá Barselóna er einsdæmi. Enginn hefur verið valinn besti knattspyrnumaður heims jafn oft og önnur einstaklingsmet sem hann hefur sett hjá félaginu og í spænsku úrvalsdeildinni eru óteljandi.  

Samningur Messi hjá Barcelona rennur út í sumar en síðasta sumar urðu miklar vangaveltur um hvert næsta skref hans yrði á ferlinum. Hann var þá afar óánægður hjá Barcelona og stjórnarhætti Josep Maria Bartomeu sem var þá forseti félagsins.

Eftir að Bartomeu hætti hefur ekki heyrst mikið af óánægju Messi. Hann var síðasta sumar orðaður við stórlið eins og Manchester City og PSG. Messi neyddist hins vegar til að vera áfram hjá Barcelona vegna samningsmála.

„Hann er ennþá besti leikmaður í heimi“

Ronald Koeman, stjóri Barcelona, sagði í viðtali í gær að hann vonaði að Barcelona myndi vera áfram hjá félaginu. „Hann sýndi það í dag að það er ómögulegt að spila án hans. Hann er ennþá besti leikmaður í heimi, hann er búinn að skora 30 mörk nú þegar og unnið mörg stig fyrir þetta lið,“ sagði Koeman eftir leikinn.

„Þetta er samt spurning fyrir Leo til að svara. Ég og liðið viljum að hann verði áfram. Ef hann verður ekki áfram í þessu liði þurfum við að hafa töluverðar áhyggjur af því hver á að skora öll þessi mörk.“