Krakkar feta sig áfram í fornleifauppgreftri

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Krakkar feta sig áfram í fornleifauppgreftri

17.05.2021 - 07:45

Höfundar

Fornleifaskóli unga fólksins hefur verið starfræktur frá 2018 eða frá því að uppgröftur þar hófst í Odda. Hann er ætlaður krökkum í 7. bekk í grunnskólunum í Rangárþingi, bæði til að kynna þeim aðferðir fornleifafræðinnar og sögu sveitarinnar og þá sérstaklega Odda.

„Ég skrái niður hvað þetta er og hvað við höldum að þetta sé, magnið dagsetningu og skammstöfun,“ segir Magnea Ósk Hafsteinsdóttir sem er búin að finna til dæmis bein og glerbrot. 

„Þau fá að koma hérna einn dag og kynnast aðferðum fornleifafræðinnar. Við erum með starfsstöð þar sem þau eru að rannsaka gripi, svo kynnast þau aðferðum fornleifaskráningar og svo fá þau að prófa að grafa upp í tilbúnum reit,“ segir Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur. 

Fannar Óli Ólafsson segir spennandi að kynnast aðferðum fornleifafræðinnar og fá að prófa en stefnir enn á að verða fótboltamaður. „Ég er búinn að finna skeifu, undan hesti og svo fann ég múrsteina. 

„Þau fá innsýn í hvernig við vinnu, læra á efniviðinn og hvað gripirnir geta sagt okkur um fortíðina og svo framvegins,“ segir Kristborg um hópinn sem hefur verið sérlega áhugasamur.