Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Furða sig á beinni samkeppni ríkisins vegna sumarúrræða

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett
Félag atvinnurekenda gagnrýnir að endurmenntunardeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri bjóði á ný upp á niðurgreidd námskeið í beinni samkeppni við námsframboð einkafyrirtækja. Framkvæmdastjórinn segir að ríkið veiti fyrirtækjunum í raun tvöfalt högg í miðjum heimsfaraldri.

Félag atvinnurekenda, FA, kvartaði til Samkeppniseftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA vegna niðurgreiðslu ríkisins á endurmenntunarnámskeiðum ríkisháskólanna í fyrrasumar. Bæði HÍ og HA hafa síðustu vikur auglýst námskeið undir merkjum sumarúrræða stjórnvalda. Háskólarnir auglýsa námskeið sem eru ýmist gjaldfrjáls eða kosta þrjú þúsund krónur.

FA telur þetta í beinni samkeppni við námsframboð einkarekinna fræðslufyrirtækja. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, furðar sig á að menntamálaráðuneytið bregðist ekki við erindum um hvort stjórnvöld hafi metið afleiðingar þessara niðurgreiðslna fyrir einkafyrirtæki. 

„Það koma bara engin svör við því. Við erum bara steinhissa á þeim viðbrögðum, ef ég á að segja alveg eins og er,“ segir Ólafur.

Hugmyndin í grunninn góð og enn hægt að bregðast við

Samkeppniseftirlitið kallar eftir slíku mati í bréfi til ráðuneytisins í dag og brýnir að hugað sé að þeim samkeppnislegu áhrifum sem ákvarðanir og ráðstafanir ráðuneytisins geta haft. 

„Það er orðið svolítið seint því ríkisháskólarnir eru byrjaðir að auglýsa mjög mikið niðurgreidd námskeið í samkeppni við einkafyrirtæki. Ég segi samt ekki að það sé of seint, ég held að það sé enn þá hægt að breyta um kúrs og fá einkareknu fyrirtækin að borðinu við þessi sumarúrræði sem eru í grunninn alveg prýðileg hugmynd til þess að styðja við háskólanemendur og atvinnuleitendur,“ segir Ólafur.

Hann segir þetta í raun tvöfalt högg fyrir einkarekin fræðslufyrirtæki.

„Fyrst missa þau miklar tekjur og viðskipti vegna samkomutakmarkana og svo kemur ríkið og fer í beina, niðurgreidda samkeppni við þau. Það er eitthvað sem gengur bara ekki upp og er ekki forsvaranlegt,“ segir Ólafur Stephensen.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.

Ítrekaði ósk um viðbrögð ráðherra

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, furðaði sig einnig á viðbragðaleysi menntamálaráðuneytisins vegna málsins á Alþingi í dag.

„Ég spurði m.a. hvort þess hefði verið gætt af hálfu stjórnvalda að þessi ríkisstyrkur væri ekki nýttur til að niðurgreiða þjónustu sem er í beinni samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki sem bjóða sambærileg námskeið. Fyrirspurninni hefur á tveimur mánuðum ekki verið svarað,“ sagði Hanna Katrín á Alþingi í dag.

Hún ítrekaði ósk sína um viðbrögð menntamálaráðherra vegna málsins.