Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fjórir á sjúkrahúsi en enginn í öndunarvél

17.05.2021 - 23:29
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Fjórir sjúklingar eru nú inniliggjandi á Landspítalanum vegna COVID-19. Þrír eru í einangrun með virkt smit, einn þeirra á gjörgæslu en ekki í öndunarvél.

66 sjúklingar eru í eftirliti COVID-19 göngudeildar spítalans, þar af eru 14 börn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá farsóttanefnd spítalans í dag. Tvö smit greindust innanlands í gær og voru bæði í sóttkví.

Rúmlega 65 þúsund manns hafa fengið fulla bólusetningu hér á landi og rúmlega 82 þúsund manns hafa fengið fyrri skammt bóluefnis. Í þessari viku verða 24 þúsund einstaklingar bólusettir með öllum fjórum tegundum bóluefna.

Samtals fá um 12 þúsund manns bóluefni Pfizer, sem skiptist jafnt í fyrri og seinni bólusetningu samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis. Sjö þúsund manns fá bóluefni Moderna, fjögur þúsund skammtar af efni Janssen verða gefnir og 1.500 fá bóluefni AstraZeneca.