Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Endalausar frostnætur og lambær enn á fullri gjöf

Lítil sem engin spretta hefur verið í kuldatíð á Norður- og Austurlandi síðustu vikur og gróður er um þremur vikum seinna á ferðinni en venjulega. Skepnur sem jafnan eru komnar á beit eru enn á fullri gjöf og lítið bólar á korni sem sáð var í apríl.

Þó veðrið sé auðvitað misgott á vorin er oftast orðið vel grænt á túnum um miðjan maí. Þetta árið er hins vegar frost nótt eftir nótt og dagarnir bæði kaldir og þurrir.

Margar frostnætur í maí og mjög kalt á daginn

„Já, það er óhætt að segja að þetta er frekar óvenjulegt,“ segir Anna Bára Bergvinsdóttir, bóndi á Áshóli í Grýtubakkahreppi. „Það er bara búið að vera fleiri en færri nætur í maí sem er frost á nóttunni og mjög kalt á daginn.“

Lambærnar á fullri gjöf vel fram í júní

Í þessari tíð sprettur lítið sem ekkert og túnin eru frekar grá yfir að líta. Ef allt væri eðlilegt væri lambfé komið á beit. „Já, við værum nú búin að setja meira út á tún ef væri gott,“ segir Anna. „En við erum meira að halda þeim heima og bíða eftir að þau verði stálpaðri. Þau þurfa að vera stálpaðri til að fara út þegar er svona kalt.“ Hún segir útlit fyrir að það þurfi að gefa kindunum heima vel fram í júní.

Vantar víða hey eftir kal síðasta sumar

Margir bændur eiga lítið hey eftir kal síðasta sumar. „Nei, en við sleppum nú ágætlega, við eigum passlega mikið. En það er víða sem vantar hey.“
„Þannig að menn fara ekki með neinar fyrningar inn í sumarið?“
„Nei, það er alveg ljóst. Við höfum nú yfirleitt átt aðeins fyrningar sem er ágætt. En það verður sennilega klárað þetta árið.“

Bændur bera á tún þrátt fyrir kuldann

En bændur eru samt að bera á tún bæði skít og tilbúinn áburð, sem verður þá kominn í jörðina þegar tíðin batnar. „Já, það er víða hérna í kring farið að bera á, en ég held að það sé ekki farið að koma til neinna nota, það vantar rekjuna,“ segir Anna. „En við erum líka mjög glöð að hafa ekki vætu. Það hjálpar rosalega mikið til þegar er svona kalt, upp á ærnar og lömbin, að hafa ekki vætu.“

Bólar lítið á korni sem var sáð fyrir tæpum mánuði 

Þórir Níelsson bóndi á Torfum í Eyjafirði sáði korni 20. apríl. Og núna tæpum mánuði síðar hefur nær ekkert gerst. Sprettan er nánast engin í þessari kuldatíð. „Þetta náttúrulega seinkar öllu,“ segir hann. „Það spírar mjög seint og rétt farið að sjást í. Svona í venjulegu árferði þá myndi þetta gerast talsvert fyrr eftir sáningu. Það er nú talsvert síðan ég sáði en það er bara eins og það sé vika síðan. Það komu tveir þokkalegir dagar um daginn og þá kíkti það upp, það þarf ekki meira.“

Grasið bláleitt í kuldanum

Og það gras sem þó er farið að spretta á landareigninni er bláleitt í kuldanum, en ekki grænt. Ástæðuna fyrir því segir Þórir vera að grasið nær ekki upp næringarefnum úr áburðinum við þessar aðstæður. „Þetta ætti að vera fallega grænt og ekki alveg svona dökkt. Og kýrnar ættu að vera komnar á þetta, myndi ég vilja.“
„Já, þetta er tún sem þú ætlar fyrir beit?“
„Já, það seinkar því öllu. Þær eru bara ennþá inni, við gefum þeim bara, þær eru á fullri gjöf.“