„Ég var ekkert vinsæl í skólanum“

Mynd: EBU / EBU

„Ég var ekkert vinsæl í skólanum“

17.05.2021 - 13:48

Höfundar

Það þekkja hana flestir Evrópubúar á bláa hárinu, Huldu Kristínu Kolbrúnardóttur söngkonu Gagnamagnsins og Kiriyama family. Hún er alin upp á Stokkseyri, var ekki vinsæl í grunnskóla en kynntist Gagnamagninu í FSU þar sem Stefán, dansari Gagnamagnsins, kenndi henni íslensku á lokaárinu. Í dag gæti hún ekki ímyndað sér að vera ekki partur af hópnum sem keppir í Rotterdam.

Daði og Gagnmagnið eru, eins og Evrópa veit, stödd úti í Rotterdam í Hollandi þar sem þau búa sig undir að stíga á svið í Eurovision og flytja lag sitt 10 years sem er framlag Íslendinga í ár. Smit greindist í íslenska hópnum í gær svo eins og stendur er hann allur í sóttkví, en Daði og Gagnamagnið krossa fingur og vonast eftir góðum fréttum og að þau losni í tæka tíð til að fá að troða upp á sviðinu í fyrri undankeppninni á fimmtudag.

Gagnamagnið hefur lítið verið í kringum fólk utan hótelsins sem þau dvelja á, en hvar sem sést glitta í þau á göngunum þekkja aðrir keppendur þau um leið. Ekki bara vegna þess hve hávaxinn og auðþekkjanlegur Daði er, því himinbláa hárið á Huldu Kristínu Kolbrúnardóttur söngkonu fer ekki fram hjá neinum og er orðið eitt einkennismerki Gagnamagnsins.

Boðið að vera í hljómsveitinni eftir að vera valin söngkona Músíktilrauna

Hulda Kristín var mikill aðdáandi hljómsveitarinnar Kiriyama Family sem unglingur. Hún var þá sjálf í hljómsveitinni Aragrúa sem tók þátt í Músíktilraunum og lenti í öðru sæti, auk þess sem Hulda hreppti söngvaraverðlaun keppninnar.

Bassi Ólafsson trommuleikari Kiryama horfði á Músíktilraunir og hafði samband við Huldu að lokinni keppni og bauð henni að ganga til liðs við sveitina. „Hann spurði hvort ég vildi vera með, litla stelpan, og ég bara: Vá, stóra hljómsveitin vill hafa mig með,“ rifjar hún upp. „Á fyrstu æfingunni small þetta eiginlega saman.“ Hulda ræddi við Felix Bergsson í þættinum Fram og til baka, um tónlistarferilinn, uppeldið og lífið með Gagnamagninu.

Aðeins erfitt þegar maður er öðruvísi

Hún er borgarbarn í grunninn en flutti fimm ára til Stokkseyrar þar sem hún bjó í áratug. Hulda blómstraði ekki í félagslífinu til að byrja með en lagði hart að sér í skólanum. „Það er aðeins erfitt þegar maður er öðruvísi en hinir krakkarnir, ég var ekkert vinsæl eða neitt þannig í skólanum,“ segir hún.  „En ég hugsaði mjög mikið um námið og fór upp um bekk.“

Sigraði barnakeppnina á Þjóðhátíð

Snemma varð öllum í kringum hana ljóst að Hulda myndi njóta sín í listaheiminum. Hún byrjaði að syngja og dansa sem barn og æfði á píanó frá fimm ára aldri. Á þjóðhátíð kom hún fyrst fram opinberlega þegar hún söng lagið Ég skal mála allan heiminn og sigraði barnakeppni hátíðarinnar.

 Í kringum fermingaraldur byrjaði hún í Aragrúa og auðvitað skömmu síðar í Kiriyama. „Þetta er svart og hvítt, ég er með eitís-poppið í Kiriyama, og svo með indí-þungarokkið.“ Hún semur einnig sjálf og hefur sett sér það markmið að vera búin með plötu áður en hún verður 25 ára.

Dillar sér á sviðinu með íslenskukennaranum í menntaskóla

Í Fjölbraut Suðurlands kynntist hún Daða Frey, Stefáni Hannessyni og Árnýju. Þau eru aðeins eldri en hún og voru að útskrifast þegar Hulda byrjaði, en hún kynntist Daða þegar hann reddaði Aragrúa fyrsta gigginu sínu á kvöldvöku FSU.

Hulda var á listnámsbraut og naut sín í botn í skólanum. Hún tók sér hlé á námi til að fara í hljóðtækninám og þegar hún kláraði stúdentinn kenndi Stefán í Gagnamagninu henni íslensku. Því má með sanni segja að Hulda dilli sér á sviðinu í Rotterdam með íslenskukennaranum sínum úr menntaskóla.

Í dag er Hulda, ásamt því að vera í tveimur hljómsveitum og að hefja sólóferil, að klára leikarabraut í Kvikmyndaskólanum sem hún kallar sitt annað heimili.

„Þetta er búið að vera geggjað“

Hún fékk boð um að vera í Gagnamagninu í skilaboðum frá Daða sem spurði hana árið 2017 hvort hún væri til í að taka þátt í Eurovision-atriði. „Ég bara: Ehh, jájá!“

Hún þekkti auðvitað til annarra í hópnum en kveðst hafa fundið fyrir örlitlu stressi fyrir fyrstu æfingarnar. „Ég er rosalega feimin manneskja þannig að það að hoppa inn í grúppu var bara: Ekki fá kvíða, þetta verður allt í lagi,“ segir hún.

En fljótlega leið henni eins og heima hjá sér. „Þau eru svo slök og yndisleg að þetta er bara búið að vera geggjað.“

„Gæti ekki ímyndað mér að vera ekki partur af þessum hópi“

Gagnamagnið tók fyrst þátt í Söngvakeppninni árið 2017 með lagið Hvað með það? og laut í lægra haldið fyrir Svölu Björgvinsdóttur sem fór út fyrir Íslands hönd það árið.

10 years er þriðja lagið sem Gagnamagnið semur fyrir Eurovision. Framlag Íslands í fyrra var auðvitað hið geysivinsæla Think about things og segir Hulda að þau hafi saman farið í mikla rússíbanareið síðan, sem landaði þeim í Rotterdam þar sem þau eru stödd núna og una sér vel þrátt fyrir að erfiðleikar hafi komið upp. „Ég get ekki ímyndað mér að vera ekki partur af þessum hópi,“ segir hún stolt að lokum.

Felix Bergsson ræddi við Huldu Kristínu Kolbrúnardóttur í Fram og til baka á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Gagnamagnshljóðfærin verða á sviðinu, sama hvað

Menningarefni

Spennan eykst í Rotterdam - stífar æfingar fram undan

Menningarefni

Vænta niðurstöðu skimunar um hádegisbil