ÁTVR vill lögbann á vefverslanir með áfengi

17.05.2021 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar V - RÚV
ÁTVR hyggst fara fram á lögbann á áfengssölu á netinu og kæra starfsemina til lögreglu. Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir það mat fyrirtækisins að netsalan sé ólögleg og að úr því verði að fá skorið.

Stjórnendur ÁTVR hafa ákveðið að bregðast við netverslun víninnflytjandans Sante með því að óska eftir lögbanni á starsemina og kæra hana til lögreglu. Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að hafinn sé undirbúningur að hvoru tveggja. „Eins og kemur fram þá teljum við nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort að þessi starfsemi sé lögleg. Auðvitað er okkar mat eins og kemur fram að hún standist ekki lög. Það er nauðsynlegt fyrir okkur fyrir framhaldið að vita hvar við stöndum,“ segir Sigrún. 

Stjórnendur ÁTVR vísa til þess að fyrirtækinu hafi verið falinn einkaréttur á áfengissölu og sú lagasetning byggist á markmiðum löggjafans um heilbrigðissjónarmið. Sigrún telur starfsemi Sante stangast á við þau markmið. „Ég held að það sé alveg ljóst að þetta sé ógn við markmiðið sem starfsemin byggir á,“ segir Sigrún. 

Arnar Sigurðsson, eigandi Sante, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að hann hygðist senda inn kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA, hann sagðist telja að ríkið niðurgreiddi samkeppnisrekstur í smásölu á áfengi með rekstri ÁTVR.