Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tók gínu með sér í landsliðsferð til Norður-Makedóníu

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Tók gínu með sér í landsliðsferð til Norður-Makedóníu

16.05.2021 - 13:30
Saga Sif Gísladóttir er að útskrifast sem fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands og er að setja upp sýningu ásamt samnemeendum sínum í Hafnarhúsinu í Reykjavík. En hún er líka markmaður Vals í úrvalsdeild kvenna í handbolta og fór í sín fyrstu landsliðsverkefni á árinu þar sem hún vakti mikla athygli. Útskriftarlínan er einmitt innblásin af togstreitu milli heimanna tveggja.

„Ég byrjaði rosalega seint í handbolta. Ég byrjaði í fjórða flokki. Pabbi minn var lengi í handbolta og ég skil ekki alveg af hverju ég fór ekki fyrr,“ segir Saga. Þegar hún byrjaði að æfa var hún útileikmaður en skipti svo yfir í markið fyrir um átta árum, þegar hún var komin upp í meistaraflokk. 

Markið var þó strax sett hátt, Saga vildi spila um titla og komast í landsliðið þrátt fyrir að eiga annan bakgrunn en flestar hinna. Hún hefur þrisvar slitið krossbönd á síðustu árum en samt tekist ætlunarverk sitt, bæði í handboltanum og hönnuninni. Hún ætlaði sér langt í báðum greinum en það hefur ekki alltaf verið auðvelt að samtvinna þetta, sérstaklega þegar verkefnin eru stór. 

„Það hefur verið rosalega erfitt,“ segir Saga sem þarf að passa upp á að vera vel úthvíld og í góðu standi fyrir handboltann en líka helst nýta allan sólarhringinn í námið. Hún fékk til að mynda að taka með sér gínu í landsliðsverkefni til Norður-Makedóníu. Síðasta ár hefur nánast verið lyginni líkast. Saga framleiddi skyrtur á færibandi sem slógu í gegn hjá Gallerí 17 um jólin og stuttu síðar var hún valin í landsliðið í fyrsta skipti. 

Framundan er úrslitakeppni í handbolta og fyrstu skrefin sem útskrifaður fatahönnuður. 

Rætt verður við Sögu í Landanum í kvöld kl. 19:45!