Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fæðing á sóttkvíarhóteli eða næstum því

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Við sluppum við að sjóða vatn og taka til handklæði, segir umsjónarmaður farsóttarhúsa, en þar fékk kona hríðir um helgina en var flutt á sjúkrahús þar sem barnið fæddist. Tveir greindust með smit á landamærunum í gær, samkvæmt bráðabirgðatölum, og fimm innanlands og voru þeir allir í sóttkví. 

Öll nema eitt í Skagafirði

Fjögur innanlandssmitanna í gær greindust í Skagafirði. Frá miðnætti í kvöld verður slakað á samkomutakmörkunum þar og verða reglurnar í Skagafirði nú eins og annars staðar á landinu.   

Þrjár vélar frá hááhættusvæðum

Samtals lenda átta vélar á Keflavíkurflugvelli í dag. Þrjá þeirra koma frá hááhættusvæðum það er Frakklandi, Póllandi og Svíþjóð og verða allir farþegar í þeim vélum að fara í sóttkvíarhús ríkisins fyrir utan þá sem eru bólusettir eða hafa fengið COVID. 

Hótel Rauðará verður aftur sóttkvíarhús

Nýtt sóttvarnahús verður tekið í notkun í kvöld ef fram fer sem horfir. Það hefur reyndar verið notað áður og er Hótel Rauðará á Rauðarárstíg. Þar er líka sóttkvíarhúsið Lind. Í Reykjavík eru líka í notkun Fosshótel við Þórunnartún, Hótel Klettur í Mjölnisholti og Hótel Stormur við Þórunnartún. Fyrir austan er svo Hótel Hallormsstaður í notkun.

Gætu orðið 600 í kvöld

Hátt í 500 manns dvelja nú í sóttvarnahúsunum. Ekki er vitað hve margir koma í dag en Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður farsóttarhúsa segir að talan gæti farið upp í 600: 

„Við höfum nú kannski sagt það oft áður að við höfum lent í ýmsu. Eina sem við höfum átt eftir að upplifa kannski hafi verið fæðing eða andlát. Sem betur fer höfum við ekki fengið andlát í hús hjá okkur en við fengum fæðingu um helgina. Þannig að það er komið. Það var reyndar þannig að konan fékk hríðir og var flutt á spítala þ.a. barnið fæddist þar en ekki inni á hóteli hjá okkur. Þannig við sem betur fer þurftum ekki að sjóða vatn og taka til handklæði eins og gert er í bíómyndunum. En það alla vega fæddist barn um helgina þannig að það hefur kviknað líf í farsóttarhúsum,“ segir Gylfi Þór.

Enn að klára tillögur um greiningar sýna

Sóttvarnalæknir hefur ekki endanlega skilað heilbrigðsráðherra tillögum um fyrirkomulag greininga sýna. Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hefur takmarkaða afkastagetu. Íslensk erfðagreining getur létt undir en ekki hefur verið óskað formlega eftir því. 

Þrír bólusetningadagar í Laugardalshöllinni

Rúmlega 18.300 skammtar af bóluefni verða til reiðu í vikunni að frátöldu bóluefni frá AstraZeneca. Á höfuðborgarsvæðinu verður bólusett með Moderna í Laugardalshöllinni á morgun, Pfizer á þriðjudaginn og Janssen á fimmtudaginn. Hluti þeirra sem boðaður hefur verið fer í seinni sprautuna. Annars stendur til að bólusetja konur yngri en 55 ára og eru í áhættuhópum. Í Janssen bólusetningunni á fimmtudaginn verður haldið áfram að bólusetja starfsfólk leik- og grunnskóla en líka jaðarhópa, flugmenn og skipaáhafnir. 

2500 bólusettir á Norðurlandi

Samtals verða 2500 skammtar notaðir í Norðurlandi í vikunni frá Blönduuósi til Þórshafnar. 2000 skammtar af Pfizer og 500 af Janssen koma á þriðjudaginn. Margir fá seinni sprautuna og svo verður haldið áfram að bólusetja fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Einnig verða leikskólastarfsmenn bólusettir og flug- og skipaáhafnir en aðeins þær sem þurfa að fara til útlanda. Vonast er til að hægt verði að byrja að bólusetja grunnskólakennara í þarnæstu viku samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands.