Bróderar orð sem notuð eru um kynfæri stúlkna

Mynd: RÚV / RÚV

Bróderar orð sem notuð eru um kynfæri stúlkna

16.05.2021 - 10:00

Höfundar

Sigrún Guðrúnar Bragadóttir hannyrðapönkari setur upp sýningu á Akureyri sem er innblásin af óhuggulegum sögum sem amma hennar sagði henni. Hún notar meðal annars mannshár til verksins og saumar orð sem Twitter-notendur sendu henni, og höfðu heyrt notuð um kynfæri stúlkna.

Um hvítasunnuhelgina verður hannyrðapönk-sýning opnuð á Akureyri. Þar mun Sigrún Guðrúnar Bragadóttir sýna rokókó-stól sem hún hefur gert upp með byggingarvinnugarni og mannshárum. Verkið nefnir hún Meyjarsæti og notar hún mannshárin til að bródera orð sem stúlkur og fólk sem er alið upp sem stúlkur hafa fengið að heyra um sig og kynfæri sín fyrir tólf ára aldur.

Hugmyndina fékk Sigrún á jafnréttisráðsstefnu í Malmö. Þar hafði tré verið stillt upp sem konur máttu hengja miða á og skrifa hvað þær vildu verða þegar þær voru tólf ára. Þegar lengra var gengið inn í ráðstefnusalinn var athygli vakin á því að enn eru stúlkur gefnar í hjónaband um tólf ára aldur víða í heiminum, verða mæður á barnsaldri og framtíð þeirra og draumar verða oft að engu. „Þetta sat í mér og ég komst svo að því að amma mín hætti skólagöngu tólf ára.“

Föðuramma Sigrúnar sagði henni söguna af meyjarsætinu, sem varð innblástur að verkinu. „Á landnámstíma, þegar þing var, voru álitlega stúlkur, stúlkur sem þóttu vænlegar til undaneldis, píur á lausu, þeim var stillt upp í meyjarsætum þannig að fólk gat séð hverjar væru fínar og á lausu. Þær voru allt niður í tólf ára gamlar.“ Sigrún hefur lengi leitað heimilda sem styðja við söguna án þess að finna þær. „En þetta sagði föðuramma mín, mikil sagnakona, og ég hef hennar orð fyrir því.“

Sigrún fékk þá hugmyndina um að bródera í rokókó-stól og kalla það Meyjarsæti. „Ég bróderaði með byggingargarni sem heitir múrlína og er neonbleikur litur eins og grifflurnar áttatíu og eitthvað.“ Orðin sem hún saumar í með mannshári fékk hún frá fólki á Twitter, orð sem hún bað um að fá send frá konum og fólki sem alið var upp sem stúlkur, heyrðu sögð um sig eða kynfæri sín fyrir tólf ára aldur. „Það voru ansi áhugaverð orð sem ég fékk, mjög ljót en mjög fyndin líka.“

Stólinn málaði hún, pússaði og lakkaði með lími sem hún gerði sjálf úr mysupróteini. Hárið fékk hún frá tengdamóður sinni, mágkonum og kunningja. Þau verkar hún samkvæmt tvö þúsund ára gamalli kínverskri hefð. „Það er mjög áhugavert að nota mannshár því í raun og veru voru það sænskar vinnukonur um aldamótin 1900 sem sáu til þess að þessi vinna með mannshár myndi ekki deyja út í Skandinavíu. Þetta var mjög vinsælt á Viktoríutímanum í Bretlandi að ungir karlmenn sendu stúlkum skartgripi úr þeirra eigin hári, en þá var það yfirleitt gert í Kaupmannahöfn og sent aftur til Bretlands.“ Að sauma úr mannshári getur verið snúið en Sigrún byrjar á að baða það í eggjahvítu og skola úr köldu vatni svo það verði stíft.

Rætt var við Sigrúnu Guðrúnar Bragadóttur í Mannlega þættinum á Rás 1.