Allt galopið í Eurovision-veislunni sem framundan er

Myndir sem voru teknar í bátsferð 15. maí í kringum Rotterdam.
 Mynd: Gísli Berg - RÚV

Allt galopið í Eurovision-veislunni sem framundan er

16.05.2021 - 13:37

Höfundar

Hin formlega Eurovision-vika er gengin í garð, sú 65. sinnar tegundar. Einu sinni frá upphafi hefur keppnin ekki verið haldin en það var í fyrra, eins og margir muna. Veislan og gleðin sem henni fylgir er því eiginlega tvöföld þetta árið. Framundan eru tvær undankeppnir og úrslit í einum alvinsælasta og stærsta sjónvarpsviðburði í heimi.

Eurovision-keppnin skiptist í tvennt, fyrri viku og seinni viku. Í fyrri vikunni er æft og í seinni vikunni er keppt. Seinni vikan hefst formlega í dag. Felix Bergsson, fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins, segir að þessar tvær vikur séu gjörólíkar. „Nú er æfingum lokið og generalprufur og keppnin getur hafist. Það má segja að nú birtist hinn harði raunveruleiki stigagjafar og brottfalls úr keppninni en jafnframt gleðin yfir því að fá að flytja lögin fyrir áhorfendur í sal,“ segir hann og bætir við að vikan, sem nú er gengin í garð, sé listamönnunum erfið enda keyrt á generalprufur og sjónvarpsþætti af miklum krafti. „Dagarnir verða ansi langir og því mikilvægt að gæta vel að orkunni þegar færi gefst.“ 

Vágestur laumar sér inn

Á venjulegu ári er flækjustigið við framleiðslu sjónvarpsþátta Eurovision gríðarlegt. Ekki minnkar það í ár, heldur þvert á móti. Kórónuveiran hefur sannarlega sett sitt mark á keppnina og Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, hefur gert miklar ráðstafanir. Allir þátttakendur fara í covid próf á 48 klukkustunda fresti og grimm grímuskylda gildir í höllinni og raunar alls staðar.

Þrátt fyrir stífar reglur smýgur veiran inn. Um helgina bárust fréttir af því að manneskja úr pólsku sendinefndinni hafi greinst með smit en Pólverjarnir eru á sama hóteli í Rotterdam og íslenski hópurinn, sá maltneski og rúmenski. „Það var viðbúið að Covid myndi koma upp í Eurovision en auðvitað vonuðum við að það gerðist ekki á okkar hóteli,“ útskýrir Felix. „Við munum áfram halda sóttvarnarreglur í heiðri og reyna að láta þetta ekki trufla okkur á lokasprettinum. Við skerpum í raun á reglunum en íslenski hópurinn hefur verið til mikillar fyrirmyndar og það væri einstök óheppni ef Covid leynist í okkar röðum. Stóra málið í allri okkar vinnu er að tryggja öryggi hópsins og koma Daða og Gagnamagninu á svið á miðvikudag og fimmtudag og svo vonandi aftur á föstudag og laugardag. En ég fullyrði raunar að þetta er ekki það síðasta sem við sjáum af þessum vágesti og margt mun gerst í vikunni,“ segir hann og bætir við að ýmislegt sé rætt bakvið tjöldin og ljóst að áskoranirnar eru margar. „Ég dáist að hollenskum skipuleggjendum og EBU fyrir að láta þennan draum Evrópu um Eurovision 2021 rætast.“ 

Æfingar í Ahoy höllinni í Rotterdam fyrir Eurovision 2021.
 Mynd: Eurovision TV
Sviðið í Ahoy lítur stórglæsilega út.

Allt galopið með 10 years

Mál málanna er eðlilega íslenska framlagið í ár. Daði Freyr og Árný Fjóla eru einhver bestu hjón Suðurlands og verðskulda nú titilinn Eurovision-hjónin. Þau mynda fjölskyldu með dóttur sinni Áróru Björgu en nýjasta viðbótin í þann fallega hóp kemur í heiminn í sumar og hefur líklega meiri reynslu af Eurovision en allir miðað við aldur. Árný Fjóla hefur grínast með það á blaðamannafundum að vinnuheitið á ófæddri dótturinni sé Lára.

Lag Íslands í ár 10 years fjallar einmitt um áratugarlangt samband Daða og Árnýjar. Samband þeirra við Söngvakeppnina og svo Eurovision hófst hins vegar árið 2017 með laginu Hvað með það? sem lenti eftirminnilega í öðru sæti þegar Svala Björgvins sigraði með laginu Paper. „Frá því ég kynntist Daða og Árnýju hef ég dáðst að þeim, listrænu innsæi þeirra, húmor og sjarma,“ segir Felix og bætir við að líklega sé Evrópa að komast á sömu bylgjulengd í aðdáun á þeim. „Þau og dásamlegu vinir þeirra í Gagnamagninu fara þetta á hægðinni og heilla alla sem þau hitta uppúr skónum. Við höfum verið að sjá það gerast hér í Rotterdam og ég held að hápunktinum verði náð á sviðinu á fimmtudagskvöld. Eftir það getur allt gerst,“ segir Felix sposkur.

Tugir viðtala hjá Daða og Gagnamagninu

Athygli fjölmiðla og aðdáenda keppninnar á íslenska framlaginu hefur sannarlega ekki farið framhjá neinum. Allra síst fjölmiðlafulltrúa Íslands, Rúnari Frey Gíslasyni, sem sér um að bóka viðtöl í fjölmiðlum allra landa. Skipulögð viðtöl eru um þrjátíu talsins hingað til. Ágangur erlendu pressunnar hefur raunar verið svo mikill að ekki hefur gefist tími fyrir öll umbeðin viðtöl. „Íslensku keppendurnir eru í uppáhaldi hjá blaðamönnum. Þau eru einlæg og opin í viðtölum, eru þau sjálf og með enga stæla. Auk þess er lagið ofarlega í veðbönkum og það ýtir alltaf undir áhuga blaðamanna. Daði er svokallað multitalent og fjölmiðlafólk áttar sig á því að hann er spennandi listamaður sem á framtíðina fyrir sér,“ segir Rúnar Freyr.

Stórir og virtir fjölmiðlar á borð við BBC hafa sýnt Daða og Gagnamagninu mikinn áhuga en 10 years var til dæmis Tune of the week á BBC Radio 1 í síðustu viku. „Hinar ríkisstöðvarnar eru einnig mjög áhugasamar og hann er í mörgum af stærstu sjónvarpsþáttum nokkurra landa, þar á meðal í Hollandi, Bretlandi og Rússlandi. Við erum ótrúlega ánægð með að vera með svona keppendur hér í Rotterdam. Þau eru landi og þjóð til sóma,“ segir Rúnar Freyr kátur. 

Myndir sem voru teknar í bátsferð 15. maí í kringum Rotterdam.
 Mynd: Gísli Berg - RÚV

 

Eldheitur áttukokteill

39 lönd stíga á svið nú í vikunni með öllu tilheyrandi. Laufey Helga Guðmundsdóttir, ritari FÁSES sem er félag áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, segir keppnina í ár firnasterka. „Besta Eurovision síðan í Baku 2012! Mörg góð númer munu liggja eftir í Eurovision kirkjugarðinum. Varúð, það er sláturtíð framundan,“ segir hún almennt um keppnina og fer í frekari greiningu. „Ást keppenda á bleikum neonljósum og sviðsetningu frá áttunni er áberandi. Svo erum við með 9 lög sem falla undir Fuego-uppskriftina,“ útskýrir hún og vísar þar í Eleni Foureira sem tók þátt fyrir hönd Kýpur árið 2018. Í stuttu máli: Mjög hátt hitastig í kynþokka bæði hjá flytjanda og dönsurum.

En fleira einkennir keppnina í ár. „Í bland við eldheitan áttukokteilinn erum við með lög sem stíga í vænginn við gospel, valdeflingu kvenna og trúarlegar eldmessur. Það er mikill söknuður eftir almennilegri balkanballöðu í ár,“ viðurkennir Laufey. Hún á heldur ekki í vandræðum að velja versta framlagið. „Það eina góða við lagið frá Georgíu er að það endar.“ Og nú veður á greiningardeild Laufeyjar. „Danmörk er með langsamlega hressasta danssmellinn en Úkraína er með best heppnaða listgjörninginn. Ég spái því síðan að margar húsmæður í Vesturbænum tilkynni leka í kjallara yfir ítalska framlaginu. Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá að af topp 6 í veðbönkum núna eru 4 lönd sem aldrei hafa unnið Eurovision.“

Ísland með í toppbaráttunni

Laufey Helga finnur tengingu við sinn innri Nostradamus þegar hún er spurð um gengi Íslands í ár. „10 years hefur sprungið út í sviðsetningu í Rotterdam sem er nákvæmlega það sem ég átti von á. Einlægt og áreynslulaust fjör einkennir atriðið. Daði og Gagnamagnið eru með geggjað lag, framúrskarandi flytjendur og grípandi sviðsetningu. Við stöndum svolítið út úr flórunni. Ísland verður í topp þremur í ár og ég sé fyrir mér að við gætum unnið símakosninguna,“ tilkynnir hún bjartsýnin uppmáluð.

Árlegt tveggja vikna Eurovision-leyfi

Í venjulegu árferði er Laufey Helga ein af fréttariturum FÁSES á staðnum þar sem keppnin er haldin hverju sinni. Þetta árið er hún hins vegar búin að koma sér upp blaðamannaaðstöðu heima á Íslandi, með sínu venjubundna 2ja vikna Eurovision-fríi frá vinnu sinni en hún er lögfræðingur á lagasviði Alþingis Íslendinga. „Ég er búin að fylgjast vel með æfingum og blaðamannafundum gegnum rafrænan aðgang að Ahoy blaðamannahöllinni. Við í FÁSES erum að skrifa og búa tilefni fyrir fases.is en hittumst líka til að spá og spekúlera,“ segir hún. FÁSES stendur fyrir ýmsum viðburðum í vikunni venju samkvæmt, samáhorf, barsvar, karoke og fleira. Meira um það á miðlum félagsins. 

Opnunarhátíð Eurovision fer fram klukkan 18 að staðartíma í Hollandi í dag en verður öllu lágstemmdari í ljósi Covid. Fyrri undankeppnin er næstkomandi þriðjudagskvöld en Daði og Gagnamagnið stíga svo á svið, þau 8. í röðinni, á fimmtudagskvöld.

Því er tímabært að grafa vindvélar upp úr geymslum landsins, birgja sig upp af partísnakki og leggja lokahönd á heimagerða Eurovision-leiki fyrir stóru stundirnar sem framundan eru. Gleðilega hátíð!

Uppfært. Þann 16. maí kom í ljós að einn úr íslenska hópnum er COVID smitaður eins og greint var frá í frétt á ruv.is.

Æfingar í Ahoy höllinni í Rotterdam maí 2021
 Mynd: EBU
Æfingar í Ahoy höllinni í Rotterdam maí 2021
 Mynd: EBU
Þær Elena og Destiny keppa fyrir hönd Kýpur og Möltu í ár og falla vel inn í Fuego-módelið.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Augun springa ef gleraugun eru ekki á nefinu

Innlent

COVID-smit í Eurovision - pólski hópurinn í sóttkví

Menningarefni

Daði og Gagnamagnið eru tilbúin fyrir stóra daginn

Menningarefni

Fyrsta vika Daða og Gagnamagnsins í Rotterdam