Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Það eru engin mannréttindi“

15.05.2021 - 19:50
Mynd: Shehab News Agency / Shehab News Agency
Í dag er sjötti dagurinn þar sem sprengjum rignir yfir íbúa á Gaza og eldflaugum er skotið þaðan í átt að Ísrael. Tíu manns úr sömu fjölskyldu voru drepin í loftárás Ísraelshers á flóttamannabúðir á Gaza og skrifstofur alþjóðlegra fjölmiðla voru jafnaðar við jörðu. Einn Ísraeli lést í eldflaugaárás í úthverfi Tel Aviv.

Dagurinn í dag hófst á þeim tíðindum að tíu úr sömu fjölskyldu hefðu verið myrt í loftárás á flóttamannabúðir á Gaza. Þar af voru átta börn. Mohammed Hadidi missti nánast alla fjölskylduna sína í árásinni. „Ég ákalla hvorki heiminn, alþjóðasamtök né mannréttindasamtök því það eru engin mannréttindi. Það er tómur áróður. Fjögur stríð hafa verið háð. Hvað gerðu þau okkur? Hvað gerðu saklausu börnin?“ Spyr Mohammed. Eiginkona hans og fimm börn voru á á heimili í al-Shati flóttamannabúðunum að fagna Eid al-Fitr ásamt fjölskyldu þegar árásin var gerð. Þrjú barna hans og eiginkona létust samstundis og ellefu ára sonur hans hefur enn ekki fundist. Minnst fjörutíu börn hafa verið drepin á Gaza frá því árásirnar hófust á mánudag, það yngsta sex mánaða - að því er kemur fram í yfirlýsingu UNICEF. 

Einn lést í Ísrael

Hundruðum eldflauga var skotið frá Gaza að ísraelskum borgum, öflugt loftvarnarkerfi stöðvar þær flestar en þó ekki allar. Einn karlmaður lést í úthverfi Tel Aviv. Þá varð íbúðarhús í borginni Beersheba fyrir skemmdum.  

Um hádegisbil í dag skrifar Linah Alsaafin, fréttamaður Aljazeera á Twitter að kollegar hennar á Gaza hafi fengið símtal frá Ísrael um að byggingin þar sem skrifstofur þeirra og fleiri alþjóðlegra fjölmiðla eru til húsa verði sprengd eftir klukkustund. Stuttu síðar var byggingin jöfnuð við jörðu. Gary Pruitt forstjóri AP sagði að litlu hefði mátt muna að manntjón yrði og kvaðst bæði hneykslaður og skelfingu lostinn yfir framferðinu. „Úr þessari byggingu var besta sjónarhornið fyrir heiminn að sjá atburði á Gaza en nú er hún rústir einar,“ segir Pruitt. 

Palestínumenn á Vesturbakkanum, í Austur-Jerúsalem og innan Ísrael hafa mótmælt síðustu daga og minnst 13 hafa látist af hendi lögreglu eða hermanna og hundruð eru særð.