Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Listagrúppía bregður sér út á næturlífið

Mynd: - / Island Records

Listagrúppía bregður sér út á næturlífið

15.05.2021 - 09:00

Höfundar

Fjörutíu ár eru liðin síðan fimmta stúdíó-plata jamaísku tónlistarkonunnar Grace Jones kom út. Sú heitir Nightclubbing og er í miklu uppáhaldi hjá tónlistargagnrýnanda Lestarinnar, Davíð Roach Gunnarssyni.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar:

Þann 11. maí síðast liðinn voru fjörutíu ár frá því að ein best sándandi plata popptónlistarsögunnar kom út, breiðskífan Nightclubbing þar sem tvíkynja dívan Grace Jones sleit sig frá diskórótum fyrstu platna sinna og umfaðmaði dýpri karabískar reggí-rætur, og blandaði við nýbylgjurokk, döbb, fönk og listaspírupopp.

Nightclubbing er níu laga verk með sex kóverlögum eftir menn eins og Bowie, Bill Withers og Sting sem Grace Jones umbreytir í algjörlega sín eigin, plata sem var tekin upp á Bahama-eyjum en inniheldur alla þá tónlistarstíla sem voru að gerjast í klúbbasenu New York-borgar þess tíma. Grace Jones er stórkostleg tónlistarkona, einn mesti töffari tuttugustu aldarinnar og tískuækon hvers áhrif hafa bergmálað í seinni tíð gegn um Madonnu, Lady Gaga og Roisin Murphy.

Fyrirsæta verður diskódíva

Grace Jones fæddist á Jamaíku 1948 en foreldrar hennar fluttu til Bandaríkjanna þegar hún var 13 ára. Hún hlaut trúarlegt uppeldi sem hún hóf uppreisn gegn á unglingsárunum þegar hún byrjaði að drekka áfengi, mála sig og sækja hommaklúbba með bróður sínum. Hún skráði sig í leiklistarnám og sökkti sér í hippamenninguna þar sem hún prófaði hugvíkkandi lyf eins og LSD. Hún fór til New York þegar hún var 18 ára og gerðist módel, og flutti svo til Parísar 1970 þar sem hún varð vinsæl fyrirsæta tískuhússins Yves Saint Laurent. Hún vann með ljósmyndurum eins og Helmet Newton sem lönduðu henni forsíðum á tímaritum eins og Elle og Vouge.

Um miðjan áttunda áratuginn komst Grace Jones á samning hjá Island Records þegar diskótónlistin var allsráðandi og hún vann með upptökustjóranum Tom Moulton á fyrstu breiðskífu sinni sem kom út 1977, þar sem helsti slagarinn var diskóábreiða af Edith Piaf laginu La Vie En Rose. Fame frá 78 var líka diskóplata sem og Muse frá 79 en þar sá Íslendingurinn Þórir Baldursson um útsetningar auk þess að syngja dúett með Grace í laginu Suffer.

Í blálok áttunda áratugarins datt diskósándið harkalega úr tísku og Grace Jones hélt á reggískotnar nýbylgjulendur á plötunni Warm Leatherette sem kom út 1980 og var tekin upp í Compass Point stúdíóinu á Bahamas-eyjum undir yfirstjórn ryþmaparsins Sly og Robbie. Þar voru teknar upp fleiri frábærar plötur í kring um 1980 sem dansa á mörkum margra geira, svo sem Remain in Light með Talking Heads og Tom Tom Club með samnefndri sveit.

Kvenlega bjóðandi og karlmannlega ógnandi

Á Warm Leatherette steig fram ný Grace Jones sem var að finna betur sinn einstaka karakter, laus undan oki diskósins, og í stað flatrar falsettu var þar að finna valdsmannslega raddbeitingu, stundum nær tali eða rappi en hefbundum söng, og á plötunni tók hún meðal annars lög eftir Pretenders, Smoky Robinson, Tom Petty, og svo Roxy Music-hittarann Love is The Drug. Þáverandi kærasti hennar, franski ljósmyndarinn og hönnuðurinn Jean-Paul Goude, gerði umslag plötunnar, þar sem Grace Jones birtist fyrst í þeirri ímynd sem nú er hennar þekktasta. Hann gerði einnig umslagið á Nightclubbing sem kom út ári síðar, teiknaða ljósmynd af Jones með snögga burstaklippingu á brúnum bakgrunni, með bera bringu í Armani-dragt, ókveikta sígarettu í dökkrauðvaralituðu munnvikinu, starandi stingandi augum í linsuna, einhvern veginn bæði kvenlega bjóðandi og karlmannlega ógnandi, tvíkynja sexí í sama svipnum og líkamanum.

Nightclubbing sem kom út fyrir næstum akkúrat 40 árum tók stórgóðu plötuna Warm Leatherette og byggði ofan á hana, hámarkaði það besta og skar niður óþarfann. Hún hefst á ískyggilega reggíbítinu Walking in the Rain, rökkurlegu stemmingslagi þar sem rödd Grace Jones rís aldrei upp í söng, heldur talar, skipar og andvarpar letilega línur eins og: Feeling like a Woman / Looking like a man / Sounding like a "no-no, " making what I can / whistling in the darkness / shining in the night / coming to conclusions, right is night is tight. Þú heyrir hvert einasta ásláttarhljóð anda í mixinu og speisuðu synþaslínurnar eru kirsuberið ofan á mikilfenglega hljóðmyndina.

Pull up to the Bumper Baby er eitt þriggja laga á plötunni sem Jones samdi sjálf og er suddalegur fönkslagari með slegnum bassa og fjölradda áslætti, og þykir mörgum textinn tvíræður og túlka sem vísanir í endaþarmsmök; Pull up to my bumper baby / In your long black limousine / Pull up to my bumper baby / And drive it in between. Að sama skapi er einstök túlkun Grace Jones á sálar-laginu Use Me löðrandi í nautnasullandi frygð og krökkt af sadómasó-kenndum sem ekki var að finna í upprunalegri útgáfu Bill Withers, og síkadelísk útsetning upptökustjórana Sly og Robbie nær hámarki í kosmísku synþasólóinu.

Á Nightclubbing úir og grúir af tónlistarstílum, þá helstu mætti nefna reggí, nýbylgju, fönk, sálartónlist, listarokk og synþapopp. En það sem bindur plötuna saman, og er helsta hugmyndafræðin í hljóðblönduninni er döbbið. Döbb er undirgeiri reggísins sem þróaðist á Jamaíka frá ca 70-80 með upptökustjórum eins og King Tubby og Lee Scratch Perry. Þar voru reggílög endurmeðhöndluð og áherslan í hljóðblöndun lögð á ryþmann, bassa og trommur, auk þess sem bergmálseffektum var beitt í ótæpilegu magni á það sem út af stóð.

Þessi tækni átti eftir að hafa ómæld áhrif á til dæmis seinni tíma raftónlist, og hennar gætir mjög í hljóðvinnslu Nightclubbing, og mætti kannski lýsa þannig að það er mikið bil milli hvers einasta hljóðs í mixinu. Skýrasta dæmið um döbbið má heyra í titillaginu Nightclubbing sem David Bowie og Iggy Pop sömdu fyrir Idiot-plötu þess síðarnefnda, en það er miklu þekktara og betra í flutningi Grace Jones. En þennan einstaka hljóm má líka heyra í einu frægasta lagi plötunnar, Iv’e Seen That Face Before, sem er byggt á verki argentínska tangótónskáldsins Astors Piazzolla.

Nightclubbing er ein best hljómandi plata gjörvallrar popptónlistarsögunnar og þó hún hafi komið út fyrir 40 árum hefur hún ekki elst hætishót, ef hún kæmi út í dag þætti hún alveg jafn framúrstefnuleg. Ég er til dæmis viss um að hljóðnördar sem blanda saman mörgum geirum eins og James Murphy úr LCD Soundsystem hafa stúderað hana í þaula. En það er ekki bara hljóðið heldur líka einstök túlkun, magnaður karakter og listræn sýn Grace Jones sem gerir Nightclubbing að því marglaga meistarastykki sem hún er, röddin er í senn skýrmælt og skipandi, örvandi og málsmetandi.

Bríet sækir í brunn drottningarinnar

Þó Grace Jones sé oftast að flytja texta eftir aðra gerir hún þá að sinni eign með flutningnum. Hennar stórskornu persónutöfrar og felmturslaus framkoma skapaði nýja tegund kvenhetju sem var óhrædd við sýna maskúlín hliðar á sjálfri sér. Og hvernig hún presenteraði sjálfa sig, þar sem hún notar eigin líkama og fataval eins og lifandi skúlptúr, er eitthvað sem Björk, Lady Gaga og Roisin Murphy, til að nefna augljósustu dæmin, áttu eftir að apa eftir. Eiturgræni kjóllinn og risahælarnir sem Bríet var í þegar hún tók á móti íslensku tónlistarverðlaunum um daginn sækja til að mynda grimmt í smiðju drottningarinnar.

Í frumsamda laginu Art Groupie skilgreinir Jones sig sem grúppíu listarinnar, hún sé innantómt fallegt andlit og innblástur í málverk og skúlptúra sem ekkert sé á bak við. I'll never write my memoirs / There's nothing in my book / The only way you see me an Art Groupie / I'm hooked. En það er augljóslega hæðni og afköst hennar frá Nightclubbing sýna fram á annað. Hún gaf út frábærar plötur eins og Living My Life og Slave to the Rythm og lék íkonísk hlutverk í annars ómerkilegum myndum eins og Conan The Destroyer, A View To A Kill og Vamp næstu árin eftir á. Bara fyrir tveimur árum kom hún fram á afropunk-tónlistarhátíðinni í Brooklyn, sjötug og allsnakin með líkamsmálningu og húllahúppaði meðan hún söng Slave To The Rythm. En Nightclubbing er krúnudjásnið í höfundarverkinu og það sem gerði hana að þeirri risastjörnu sem hún er í dag.

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Fertug plata diskógyðjunnar Grace Jones

Tónlist

Söng dúett á móti Grace Jones óafvitandi